Grillaður Halloumi með Quinoa-salati

Halloumi er ostur frá Kýpur sem hefur verið afskaplega vinsæll á Norðurlöndunum sem minnir svolítið á þéttan og saltan mozzarellaost. Norður á bóginn barst hann fyrst með grískum innflytjendum en æ fleiri hafa uppgötvað eiginleika Halloumi. Osturinn er mjög þéttur raunar það hátt bræðslumark að hægt er að grilla hann eða steikja án þess að hann leki niður og bráðni. Það eru ekki síst grilleiginleikar Halloumi sem hafa aflað ostinum vinsælda en ost þennan má fá í kæliborðum flestra betri stórmarkaða.

Í þessari uppskrift pörum við grillaðan Halloumi með góðu Quinoa-salati – öðru hráefni sem hefur notið mikilla vinsælda fyrir heilnæmi. Það má skipta út Quinoa fyrir t.d. búlgur (eða hvers vegna ekki farró?) en hugið þá að breyttum eldunartíma.

  • 4  dl quinoa
  • 1 laukur, niðursneiddur
  • 1 dós grillaðar paprikur
  • 1 sítróna (safi og rifinn börkur)
  • 1 búnt flatlaufa steinselja, saxað fínt
  • 1-2 halloumi-ostar
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið smá olíu á pönnu og mýkið laukinn. Bætið grilluðu paprikunum saman við og síðan quinoa. Veltið aðeins um á pönnunni í 1-2 mínútur. Hellið um hálfum lítra af vatni á pönnuna. Það er líka gott að setja teskeið af góðum grænmetis- eða kjúklingakrafti saman við. Látið malla í um 15 mínútur.

Blandið saman safanum úr sítrónunni og fínt rifnum sítrónuberkinum, 2 msk ólífuolíu og salti og pipar.

Grillið ostinn þar til hann er orðinn gullinn báðum megin.

Blandið dressingu saman við quinoa ásamt steinseljunni. Berið fram með grilluðum ostinum.

 

Deila.