Klassískur parmesankjúklingur „parmigiana“

Ítalska eldhúsið á marga rétti sem eldaðir eru með tómatasósu og parmesanosti og eru þá yfirleitt nefndir „parmigiana“. Hvaðan þeir koma upphaflega er ekki alveg öruggt en íbúar bæði Kampaníu og Sikileyjar gera tilkall til þess að hafa fundið þessa aðferð upp. Réttir eldaðir „parmigiana“ hafa síðan færst með innflytjendum um allan heim og eru vinsælir t.d. í Bandaríkjunum og Ástralíu. Þar er til dæmis Parmesankjúklingurinn eða „Chicken Parmigiana“ einstaklega vinsæll. Kjúklingur í parmesanraspi bakaður í tómatasósu og með mozzarella-osti sem síðan er borinn fram með pasta, yfirleitt spaghetti.

Annar gífurlega vinsæll réttur í sama anda er Kálfasneiðar Parmigiana en ef þið viljið elda þær finnið þið uppskrift hér og hér.

En hér það kjúklingurinn sem stendur til að elda og til þess þurfum við eftirfarandi hráefni:

  • 600 g úrbeinaðar kjúklingabringur eða læri
  • heimatilbúið rasp
  • 2 egg
  • 50 g parmesanostur
  • tómatasaósa
  • ferskur mozzarella, 1-2 stórar kúlur
  • ólífuolía
  • smjör
  • salt og pipar

Fyrsta skrefið er að útbúa góða ítalska tómatasósu. Slík sósa eða sugo di pomodoro eins og hún heitir á ítölsku er grunnurinn í fjölmörgum ítölskum uppskriftum. Leiðbeiningar um hvernig maður gerir hina sáraeinföldu en fullkomnu tómatasósu finnið þið með því að smella hér.

Næst er það raspið. Það er langbest að gera sitt eigið rasp og tekur ekki margar mínútur. Hitið ca 3 sneiðar af brauði í ofni þar til að þær verða stökkar og fara að dökkna. Setjið í matvinnsluvél ásamt parmesanostinum, salti og pipar og myljið í fínlegt rasp.

Brjótið egginn og setjið í skál. Pískið með gaffli.

Setjið raspið í aðra skál.

Ef þið notið bringur er ágætt að sker þær í tvennt og berja þær aðeins til fyrst með kjöthamri þannig að þær fletjist út í þunnar sneiðar. Læri er hægt að nota beint. Dýfið nú kjúklingabitunum einum í einu fyrst ofan í eggin og síðan í raspið. Veltið þeim vel upp úr raspinu þannig að það þekji allan bitann.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og steikið bitana þar til að þeir hafa fengið á sig góðan lit.

Setjið tómatasósuna í eldfast mót. Raðið kjúklingabitunum ofan á. Skerið mozzarellaostin í sneiðar og setjið ofan á kjúklinginn. Setjið álpappír yfir mótið og eldið í ofni við 220 gráður í 15-20 mínútur eða þar til að osturinn hefur bráðnað. Takið nú álpappírinn af, hækkið hitann og eldið áfram í um fimm mínútur eða þar til að osturinn er farinn að taka á sig smá lit.

Berið fram með spaghetti.

Romio

Einfalt og gott ítalskt rauðvín er fínt með, t.d. Romio Montepulciano d’Abruzzo.

Deila.