Pierre Sparr Pinot Gris Grande Reserve 2012

Vínhúsið Pierre Sparr í Sigolsheim í Alsace á sér um fjögur hundruð ára sögu.Lengst af var það í eigu Sparr-fjölskyldunnar. Vínhúsið átti lengi í góðu samstarfi við vínsamlagið í Beblenheim og keypti þaðan töluvert af þrúgum til viðbótar við þrúgur af eigin ekrum. Þau umskipti urðu hins vegar fyrir fimm árum að vínsamlagið ákvað að festa kaup á Pierre Sparr og nýta samlegðaráhrifin til að sækja fram. Þetta hefur styrkt vínin frá Sparr enda er það vörumerki nýtt undir bestu vínin.

Pinot Gris Grande Reserve er gullleitt á lit, í nefi angan af hvítum blómum, rósum, sítrusberki og þurrkuðum apríkósum, það er arómatískt, sætara í nefi en það reynist í munni, ferskt en jafnframt með þykka, svolítið oliukennda áferð. Hvar nema í Alsace ná menn að sameina svona hluti? Þetta er flott matarvín, reynið t.d. með austurlenskum mat eða góðum osti.

2.650 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.