Japönsk viský sækja á

Skotland er eðlilega það land sem flestir tengja við viský enda er viský skoskur drykkur og raunar þjóðardrykkur þeirra Skota. Viskýframleiðsla er hins vegar alls ekki bundin við Skotland. Írar eiga sitt viský, Bandaríkjamenn sitt Bourbon og einhver bestu viský – ekki bara utan Skotlands heldur í heimi – koma núorðið frá Japan.

Viský nýtur gífurlegra vinsælda í Japan og viskýframleiðsla á sér líka all nokkra hefð. Fyrsta eimingarhúsið sem framleiðir viský til almennrar sölu var opnað 1924 en strax á nítjándu voru Japanir farnir að prufa sig áfram í viskýframleiðslu.

Í dag er um tugur viskýeimingarhúsa starfræktur í Japan og eru þau helstu í eigu risanna Nikka og Suntory.

Nikka rekur tvö þekkt eimingarhús, annars vegar Yoichi á Hokkaido-eyju og hins vegar Miyagikyo í Sendai. Masataka Taketsuru, stofnandi Nikka,  hélt árið 1918 til Skotlands til að læra viskýgerð við Glasgow-háskóla og síðar Hazelburn-eimingarhúsið. Hann giftist skoskri konu og fluttust þau til Japan þar sem Taketsuru vann við að opna fyrsta eimingarhúsið í Japan, sem síðar varð að Suntory. Árið 1934 ákvað hann hins vegar að stofna sitt eigið viskýhús í Yoichi og lagði þar með grunninn að Nikka. Það er því ekki að óseskju að Taketsuru sé yfirleitt nefndur „faðir japanska viskýsins“.

Í Yoichi er viský ennþá eimað samkvæmt hinni hefðbundnu aðferð þar sem katlarnir eru hitaðir með fingerðri kolmylsnu, en jafnvel í Skotlandi er það fátítt nú til dags.

Viskýin frá Nikka eru fjölbreytt. Vinsælast allra er Nikka Black sem alls staðar er fáanlegt í Japan og Japanir teyga af miklum móð, gjarnan blandað með t.d. sódavatni. Þekktast er Nikka hins vegar fyrir Single Malt og Pure Malt viský í stíl skoskra maltviskýa.

Single Malt-viskýin eru tvö, Yoichi og Miyagikyo og svo verður að nefna Pure Malt sem er blanda úr möltum frá þessum tveimur eimingarhúsum.

Japönsk viský hafa verið að sækja verulega í sig veðrið alþjóðlega á síðustu árum og njóta þau mikillar virðingar. Viský á borð við þau frá Nokka geta hæglega keppt í gæðum við bestu viský Skotlands. Það er líka athyglisvert að sú þjóð sem hvað mest virðist kunna að meta Nikka, þegar horft er á tölur, eru Frakkar og þá ekki síst Parísarbúar!

Deila.