Ribera del Duero – spænsk stjörnuvín

Það er ekki hægt að velta vöngum yfir bestu vínum Spánar án þess að talið berist fljótlega að Ribera del Duero. Fyrir um hálfri öld var þetta hérað hins vegar fyrst og fremst þekkt fyrir eitt vín, Vega Sicilia sem að öðrum ólöstuðum hefur löngum verið flokkað sem eitthvert allra besta vín sem framleitt er á Spáni.

Þegar Ribera fékk viðurkenningu sem skilgreint DO-hérað árið 1985 voru þar starfandi innan við tíu vínhús en í dag telja þau hátt á annað hundrað og vínekrur héraðsins þekja eina 18 þúsund hektara og Ribera er tengt við þekkt nöfn á borð við Pesquera, Alion og Pingus.

Þetta hérað er hins vegar afskaplega látlaus þegar þangað er komið og ekki margt sem gefur vísbendingar um að þetta sé með bestu vínhéruðum ekki bara Spánar heldur Evrópu. Það er tæplega tveggja klukkustunda akstur til Ribera í norður frá í átt að bænum Valladolid. Nöfn þorpanna sem þá taka við hringja mörg hver bjöllum hjá vínáhugamönnum, Pesquera, Pedrosa og Valbuena og kemur mest á óvart hvað þau eru lítil miðað við stærð vínanna sem bera nöfn þeirra.

Sveitirnar eru látlausar, vínekrurnar eru oft með löngu millibili og er að finna bæði á sléttlendi auk þess sem þær eru farnar að teygja sig upp í hæðirnar. Og þarna erum við raunar ekki á neinu láglendi. Ribera er í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli og hæstu ekrurnar teygja sig upp í eina 900 metra. Þetta hefur áhrif á loftslagið, hitinn er mikill yfir sumarið en þarna snjóar líka á veturna og mikill hitamunur á degi og nóttu sem dregur fram sýruna í þrúgunum jafnframt því sem þær þroskast í hita dagsins.

Þrúga Ribera del Duero er Tempranillo, sú sama og notuð er í Rioja og víðar á Spáni þó að þarna gangi hún undir heitinu Tinto del Pais eða Tinto Fino og í Ribera nær hún þegar best lætur meiri þroska og dýpt heldur en í Rioja.

Vínflokkunin fylgir sömu lögmálum og í Rioja og vínin skiptast í Crianza, Reserva og Gran Reserva sem eru 2, 3 og 5 ára þegar þau koma á markað. Að auki framleiða mörg húsanna Joven eða yngri vín en tveggja ára, sem oft eru kölluð Roble.

Þótt Vega Sicilia hafi verið vínhúsið sem löngum hélt merki Ribera á lofti voru það Pesquera-vínin hans Alejandro Ferndandez sem ollu straumhvörfum þegar hinn bandaríski Robert Parker gaf einu vínanna 100 punkta og sagði Pesquera vera Petrus Spánar. Augu ansi margra beindust að Ribera í kjölfarið. Meðal þeirra var Daninn Peter Sisseck sem stofnaði lítið vínhús árið 1985 sem hann nefndi Pingus og er nú meðal dýrustu vína veraldar.

 

Og það eru fleiri spennandi vínhús í Ribera.

Cepa 21 er eitt af nýjustu vínhúsunum í Ribera og það sker sig úr í látlausri sveitinni, gæti alveg eins átt heima í Napa-dalnum í Kaliforníu. Glæsileg, nútímaleg bygging sem er hönnuð jafnt fyrir víntúrisma sem nútímalega víngerð og veitingastaður á algjörum heimsmælikvarða.

Cepa 21 er í eigu Moro-fjölskyldunnar sem rekur hið gamalgróna vínhús Bodegas Emilio Moro. Á meðan Emilio Moro er klassískt Ribera-hús er Cepa 21 vínhús sem endurspeglar nútímann í spænskri víngerð. Vínin eru þrjú enn sem komið er, hið unga Hito, síðan Cepa 21 og loks ofurvínið Malabrigo.

Það sama má segja um Pago de los Capellanes rétt hjá bænum Pedrosa, það er einn af hinum nútímalegu fulltrúum Ribera, í eigu Rodero-Villa-fjölskyldunnar. Rétt eins og hjá Cepa er frönsk eik ekki síður notuð en sú ameríska sem lengst af hefur verið ríkjandi í Ribera. Vínin massív og mikil, joven og reservan yndisleg og stóru vínin El Nogal og El Picon sýna vel þá burði sem þetta magnaða hérað hefur.

 

 

Deila.