Óvæntar mataruppákomur á Benidorm

Eitt af því fyrsta sem að maður skynjar þegar að maður kynnist Spánverjum er að þeir eru miklir matarmenn. Spænska matargerðin er kannski ekki eins þekkt og sú franska og ítalska en hún á allnokkur tromp upp í erminni, mörg þeirra í tapas- og skinkuformi. Það verður ekki þverfótað fyrir góðum veitingahúsum í hinum stóru borgum Spánar en það sama verður ekki sagt um alla þá staði sem byggst hafa upp í kringum ferðamannaiðnaðinn á sólarströndunum. Þar hefur lágkúran oft ráðið ríkjum og jafnvel auðveldara að fá breskan og þýskan mat heldur en spænskan, jafnvel sænskan.

Smám saman hefur þetta þó verið að breytast. Ferðamenn gera í minna mæli þá kröfu að „allt sé eins og heima“ og æ fleiri líta á það sem mikilvægan hluta af sólarfríinu að geta fengið góðan mat.

Ef einhver einn staður er samnefnari fyrir marga þá fordóma sem að margir hafa gagnvart spænskum sólarströndum er það líklega bærinn Benidorm á Costa Blanca. Þangað streyma milljónir ferðamanna á hverju ári og bærinn er þekktur fyrir fjörugt næturlíf, sól, strendur en kannski ekki endilega góða veitingastaði.

Það var því spennandi áskorun að sannreyna hvort að á Benidorm væri ekki bara hægt að njóta veðurs heldur einnig matar. Og niðurstaðan í stuttu máli er að það er svo sannarlega hægt, það er að segja ef að menn vanda valið.

Auðvitað er til nóg af óspennandi veitingastöðum, börum og pöbbum er stíla inn á þá fulltrúa fjöldatúrismans sem gera ekki aðra kröfu til matarins en að hann kosti sem allra, allra minnst. En þarna er líka að finna fjölmarga vandaða og metnaðarfulla veitingastaði sem standa veitingastöðum stórborganna síst að baki og verðlagið er ótrúlega hagstætt, enda samkeppnin hörð.

Það má segja margt um „byggingarlist“ Benidorm en gamli bærinn hefur óneitanlega sinn sjarma, litlar þröngar götur, iðandi af mannlífi, litlum verslunum og veitingahúsum. Þarna er hreinræktuð spænsk stemmning, ólíkt því sem er að finna innan um háreystu steypusturnana á „breska“ svæðinu í Rincon Loix við norðurhluta Levante-strandarinnar.

Í gamla bænum er til dæmis að finna skemmtilega tapasgötu Calle Santa Domingo þar sem hægt er að fá tapasrétti og spænskan mat í öllum sínum fjölbreytileika. Það má til dæmis mæla með La Braseria, gamalgróinn staður sem nýlega hefur verið gerð upp og „móderníseraður“. Flott úrval af baskneskum pinchos-tapasréttum og flottar Chuleton de buey, rifjasteikur á beini, sem eru skornar niður við borðið. Eða þá La Cava Aragonesa við sömu götu þar sem annars vegar er hægt að velja líflega, hreinræktaða tapasbarsstemmningu eða fara yfir götuna og njóta formlegri matar og þjónustu við uppdúkuð borð.

Sé gengið niður að sjónum frá hjarta gamla bæjarins kemur maður út á lítinn tanga þar sem að eru mörk Levante og Poniente strandanna. Á tanganum er lítið, glæsilegt boutique-hótel, Villa Venezia með mjög vönduðum veitingastað, mæli sérstaklega með því að fá borð á svölunum þar sem er einstaklega fallegt útsýni yfir borgina og Miðjarðarhafið. Matargerðin er nútímaleg og í mjög háum klassa – og verðlagið bara ansi hreint hagstætt miðað við það sem við eigum að venjast á Íslandi.

Þá er spennandi að kynnast því hvernig yngri kynslóð matreiðslumanna í Benidorm er að ryðja sér til rúms. Oft eru þetta fulltrúar annarrar eða þriðju kynslóðar fjölskyldna sem hafa stundað veitingarekstur í bænum og hafa þjálfað sig víða, hvort sem er í Madrid, Barcelona eða öðrum evrópskum stórborgum.

Sara Mesas sem nýlega opnaði sitt eigið veitingahús, Solotula á Calle Esperanto, er gott dæmi. Þessi sjarmerandi stúlka ólst upp í veitingageiranum og foreldrar hennar reka ennþá sitt veitingahús, El Meson, í nágrenninu. Solotula er litskrúðugur staður, Sara flokkar hann sem gastrobar og matargerðin einkennist af nýjungagirni og alúð, þarna fengum við marga spennandi rétti, margir þeirrar forvitnileg afbrigði hefðbundinna rétta, mjúkan ost fylltan með tómatamauki og ljúffenga litla hamborgara.

Sama má segja um annan gastrobar – Le Sol sem hin yndislegu hjón Guillermo og Laura reka við Avenida Dr. Orts Llorca. Le Sol hefur fengið viðurkenningu sem besti tapasbarinn á þessu svæði og á matseðlinum er að finna marga rétti þar sem að Guillermo og Laura leika sér að hefðbundnum pinchos og klassískum réttum, mæli sérstaklega með klikkuðum huevos rotos og aftur…litlum hamborgurum, sem greinilega voru í tísku á Benidorm. Það spillir heldur ekki fyrir að Guillermo er mikill vínáhugamaður og vínlistinn hans er virkilega spennandi, vel valinn vín oft frá litlum framleiðendum í hæsta klassa. Og verðlagið….smökkunarseðillinn – fimm litlir réttir – kostaði 17,90 evrur, eða rúmlega 2.600 krónur.

Fyrir þá sem vilja settlega stemmningu og góða sjávrrétti er um að gera að fara suður með Poniente-ströndinni. Eftir því sem sunnar dregur verður andrúmsloftið spænskara. Norður-Evrópubúarnir halda sig mikið til á hótelunum nyrst við Levante en við suðurhluta Poniente er mikið um spænska ferðamenn frá Madrid og öðrum svæðum er ekki liggja að sjó. El Barranco er flottur staður, svolítið formlegur, við ströndina sunnanmegin. Þar er frábært úrval sjávarrétta og má hiklaust mæla með því að fá sér Paella, en sá klassíski spænski réttur er einmitt upprunninn frá þessu landssvæði.

(Uppskrift að klassískri paella finnið þið með því að smella hér)

Og það er ekki bara hægt að finna góð veitingahús í Benidorm heldur líka vínhús sem er opið fyrir heimsóknum. Víngerðin á Alicante hefur lengst af snúist um styrkt sætvín, í anda sérrí og portvína en á síðustu árum hafa nokkur forvitnileg vínhús skotið upp kollinum. Þess er skemmst að minnast að þar til fyrir 2-3 árum vorum hér fáanleg virkilega fín vín frá Sierra Salinas – margir muna kannski eftir Mo Monastrell. Þau hafa því miður horfið úr hillum vínbúðanna en þausýndu vel að Alicante-héraðið getur alveg hreint hentað til víngerðar.

Vínekrur Enrique Mendoza eru innar í landi en vínhúsið og tunnukjallarinn eru nokkurra mínútna akstur frá Benidorm. Enrique Mendoza er farinn að leggja áherslu á lífeflda ræktun þar sem náttúrulegum aðferðum er beitt til að viðhalda heilbrigði vínviðarins. Vínin eru nútímaleg, svolítið nýjaheimsleg, flott vín úr alþjóðlegu þekktu þrúgunum en líka mögnuð vín á borð við Estecho úr Monastrell.

Meira um þetta svæði getið þið lesið með því að smella hér. 

 

Deila.