Hvað er í kassanum?

Þó svo að það fyrsta sem við tengjum við hvítvín og rauðvín sé líklega flaska er staðreyndin sú af megnið af því víni sem að selt er í vínbúðunum er ekki á flösku heldur kössum, svokölluðum bag-in-box þar sem er að finna þriggja lítra vínbelg.

Vinsældir kassavínanna eru hvergi meiri í heiminum en á Norðurlöndunum og í t.d. Svíþjóð og Noregi er rúmlega 60% af öllu víni sem selt er í vínbúðunum í kassa. Hlutfallið er síst lægra hér á landi.

Trivento Tribu

Auðvitað vitum við að bestu vínin eru ekki þau sem eru í kössunum. Vinsældirnar má rekja til annarra þátta. Í fyrsta lagi eru vínin í kössunum yfirleitt ódýrari per lítra en vínin sem seld eru á flöskum. Í öðru lagi gerir norræna meinlætahyggjan að verkum að mörgum finnst óþarfa bruðl að vera að opna „heila flösku“ þegar ætlunin er að fá sér einungis eitt glas eða svo með matnum. Þarna koma kassarnir til bjargar. Í þriðja lagi eru kassarnir að mörgu leyti svo þægilegir ef t.d. stendur til að fara í ferð í bústaðinn. Engar þungar og brothættar flöskur sem glamra í skottinu heldur handhægur kassi sem lítið fer fyrir.

Vinsældir kassavínanna hafa líka gert að verkum að það er auðveldara að fá alveg hreint prýðileg vín á kassa en áður. Norrænir neytendur eru kröfuharðir og framleiðendur reyna að koma til móts við þá með því að tappa betri vínum á kassana – þó svo að enn er það auðvitað svo að engu vönduðu vínhúsi myndi detta í hug að setja bestu dropana sína í álpoka sem síðan er settur í pappakassa.

Nokkur atriði verður líka að hafa hugfast. Í fyrsta lagi að kassavínin eru viðkvæmari þegar kemur að geymslu en vín á flösku. Á flestum þeirra er áprentuð dagsetning sem sýnir síðasta æskilega geymsludag vínsins.

Og þótt kassavínin geymist lengur eftir opnun en flöskuvín er geymsluþolið ekki óendanlegt. Þau byrja að dala eftir opnun rétt eins og vínin á flöskunum og er ágætt að miða við að vínið haldi sér spræku í fjórar til sex vikur eftir opnun.

Því má heldur ekki gleyma að það er meira brennisteinsdíoxíð (SO2) í kassavínum en venjulegum flöskuvínum. SO2 gerir vín öruggara í geymslu og kemur í veg fyrir að það fari að gerjast á nýjan leik, heldur því stöðugu. Það þarf hins vegar meira í kassana en flöskurnar og þetta finnst stundum í bragðinu, ekki síst fyrst eftir að kassinn er opnaður. Það er ágæt regla að hella alltaf víninu úr kassa í karöflu fyrst og láta það standa í smástund. Þá losnar maður við þetta.

Þumalputtareglurnar varðandi kassavínin eru því:

  • Ekki kaupa kassa þar sem átöppunardagsetningin er mikið eldri en 6-8  mánuðir. Alls ekki þegar komið er ár.
  • Geymið kassana á svölum stað, helst í ísskáp. Líka rauðvínið.
  • Umhellið víninu ávallt áður en það fer í glas
  • Munið að geymsluþolið eftir að kassinn er opnaður er 4-6 vikur
  • Muna að kassinn hefur takmarkað geymsluþol þótt hann sé óopnaður

deseos

 

Dæmi um ágæt kassavín í vínbúðunum er t.d. Deseos frá Spáni. Það er í eigu Osborne-fjölskyldunnar sem einnig á t.d. vínhúsið vinsæla Montecillo í Rioja-héraði. Og þótt Montecillo-vínið sjálft fari líklega seint í þriggja lítra kassa nýtir víngerðarteymi Montecillo sér þrúgur frá La Mancha á hásléttunni til að framleiða vín sem selt er undir nafninu Deseos. Ágætist spænskur Tempranillo, svolítið eikaður á góðu verði.

 

Það má líka nefna hið ágæta Tribu frá argentínska vínhúsinu Trivento, Casillero del Diablo Cabernet  frá Chile og suður-afrísku Drostdy Hof, td. Shiraz Pinotage sem hafa notið mikilla vinsælda á Norðurlöndunum.

 

Nýjustu víndómana um kassavín má lesa með því að smella hér.

 

Deila.