Macaroni Milanaise

Auguste Escoffier er einn frægasti ef ekki frægasti matreiðslumaður Frakka í gegnum tíðina. Escoffier, sem var uppi á fyrri hluta síðustu aldar, flokkaði og skráði margar af grunnuppskriftum franska eldhússins og byggði þar ekki síst á þeirri vinnu sem matreiðslumeistarinn Marie-Antoine Careme hafði lagt grunn að á nítjándu öld. Ein af uppskriftunum hans er Macaroni Milanaise sem Escoffier setur fram sem meðlæti með lambi. Hér er staðfærð útgáfa af Macaroni Milanaise, við sleppum t.d. trufflum sem að Escoffier notar.

  • 500 g pasta.
  • 75 g skinka, kaupið einhverja góða innflutta skinku (ekki hráskinku), skerið í litla bita. Það er líka hægt að nota pancetta eða gott beikon
  • 1 lúka sveppir, niðursneiddir
  • 1 lítil dós tómatapúrra
  • 1 dl portvín
  • lúka af rifnum parmesanosti
  • lúka af rifnum Gruyere-osti eða þroskuðum, þurrum cheddar
  • 25 g smjör
  • salt, pipar og múskat

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum. Geymið 2 dl af soðvatninu.

Hitið smá smjör á pönnu. Steikið skinkuna/beikonið í tvær mínútur eða svo ásamt sveppunum. Bætið víninu og tómatpúrruni í pottinn. Látið malla á miðlungshita þar til að sósan er orðin þykk.

Setjið pastað aftur í pott ásamt 2 dl af soðvatni. Hrærið ostunum  og smjörinu saman við þar til að þeir bráðna. Bragðið til með salti, pipar og klípu af múskat. Bætið sveppa- og skinkublöndunni saman við. Ef þið eigið einhverjar ferskar kryddjurtir, t.d. steinselju, má alveg saxa örlítið niður og bæta saman við í lokin.

Það er hægt að hafa þetta sem sjálfstæðan pastarétt en líka sem meðlæti með t.d. lambakótilettum.

Deila.