Hallveig bloggar: Svínakótelettur með salvíu og parmesan

Janúar getur verið erfiður mánuður, maður er blankur með útþaninn konfektmaga, það er myrkur allan sólarhringinn, Bára er lögst í bleyti og mæjónesan orðin gul. Eitt gott á þó janúar í pokahorninu, ísskápurinn er fullur af girnilegum ferskum kryddjurtum sem maður neyðist til að nota. Því eldaði ég um daginn þennan snilldar kjúklingarétt  með afgangnum af bernaise-estragoninu og í kvöld var komið að salvíunni sem slapp naumlega undan kalkúnafyllingunni.

Ég var harðákveðin í því að elda ekki kjúklingarétt, þar sem 4 samliggjandi dagar af kalkún með salvíubragði er nóg fyrir hörðustu fiðurfés-aðdáendur. Ég lagðist því á lendur internetsins til að leita að inspírasjón og rakst þar á ansi spennandi svínakótelettur, lagaði uppskriftina aðeins til að mínum smekk og eldaði. Kjötið var gríðargott og maturinn sló í gegn. Ég bar þær fram með einfaldri kartöflumús en það væri eins hægt að hafa pasta eða polenta með.

  • 4 beinlausar svínakótelettur
  • 1 ristuð brauðsneið
  • 1-2 msk smátt söxuð fersk salvía
  • 1 tsk maldonsalt og ½ tsk nýmalaður pipar.
  • ¼ bolli hveiti
  • 1 egg
  • 1 msk dijon sinnep
  • Smjörklípa og góð olía

12562461_10153857386682387_220644614_oRífið ristaða brauðið niður í matvinnsluvél og hakkið þar til það er orðið að grófu raspi. Blandið saman við það á grunnan disk parmesanostinum, salvíunni, salti og pipar.

Sláið eggið og blandið sinnepinu saman við á annan grunnan disk, og setjið hveitið á enn annan disk.

Berjið kóteletturnar létt ef þær eru þykkar, dýfið þeim fyrst í hveitið (en passið að hrista mesta hveitið af) svo í eggjablönduna og loks í brauðraspið. Steikið við rúmlega meðalhita í 3-4 mínútur á hlið, eða þar til kjötið hefur tekið fallegan lit.

 

 

 

 

Deila.