Úrslitakeppni Kokkur ársins 2016

Úrslitakeppni í  keppninni Kokkur ársins 2016 verður haldin laugardaginn 13. febrúar í Flóa í Hörpu milli kl 15-23.  Fimm keppendur komust áfram upp úr undanúrslitum sem fram fóru þriðjudaginn 8. febrúar.  Í keppninni á morgun munu keppendurnir útbúa þriggja rétta matseðil eða forrétt, aðalrétt og eftirrétt.  Allir eru velkomnir í Hörpu til að fylgjast með kokkunum matreiða frá 15-18. 

Samhliða úrslitakeppninni verður haldinn glæsilegur Kokkalandsliðskvöldverður sem hefst kl. 18:00.  Þar verður boðið upp á fjórrétta máltíð ásamt veglegri dagskrá.  Kvöldverðagestir munu fylgjast með þegar keppendur skila inn diskum til dómara en fyrsti keppandi mun skila inn fyrsta rétti kl. 20:00.  Úrslit munu liggja fyrir kl. 23:00 og mun Ragnheiður Elín Árnadóttir  Iðnaðar-og viðskiptaráðherra krýna sigurvegara keppninnar sem hlýtur titilinn Kokkur ársins 2016.

Keppendurnir fimm sem keppa til úrslita á laugardagskvöldið eru þeir Ari Þór Gunnarsson hjá Fiskfélaginu, Axel Björn Clausen Matias hjá Fiskmarkaðnum, Denis Grbic hjá Grillinu á Hótel Sögu, Hafsteinn Ólafsson hjá Nasa og Sigurjón Bragi Geirsson hjá Kolabrautinni.

 Sigurvegarinn mun keppa fyrir Íslands hönd í keppninni „Nordic Chef Of The Year“ sem fram fer 8. mars í Herning Danmörku.

Deila.