Hildigunnur bloggar – Kálfur í marsalavíni

Þessi réttur var búin að vera lengi lengi á dagskránni hjá okkur. Höfðum lesið um hann og séð uppskriftir á nokkrum stöðum og fannst spennandi. Stóð í okkur að kaupa marsalavínflösku fyrir einhverja eina uppskrift. Fengum svo flösku í jólagjöf. Eftir að hafa prófað réttinn mun ég passa að eiga alltaf flösku af slíku uppi í skáp. Marsalavín er ekki ósvipað og sérrí eða púrtvíni, kannski ítalska útgáfan af slíku og geymist þó flaskan hafi verið opnuð.

Í réttinn fara:

  • 1 kíló kálfasnitsel
  • 50 g hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g smjör
  • 2 msk ólífuolía (þarf ekkert að vera fínasta)
  • 1 bakki ferskir sveppir skornir í ferninga
  • 75 ml marsalavín, helst þurrt

Blandið saman hveiti og salti og húðið snitselsneiðarnar með því. Leyfið að standa í 15 mínútur til að jafna sig. Á meðan,brúnið sveppina í 50 grömmum af smjörinu. Takið sveppina af pönnunni, bætið afganginum af smjörinu ásamt olíunni á pönnuna og steikið kálfinn á báðum hliðum þar til hann hefur brúnast. Bætið sveppunum á pönnuna, lækkið niður á allra lægsta hita og eldið undir loki í 5 mínútur. Hellið marsalavíninu út á og sjóðið niður í 5 mínútur til.

Ég bauð upp á smjörsteikta kartöfluteninga með þessu og ekki væri verra að hafa ferskt salat. Gott freyðivín hentar þessum rétti sérlega vel.

Deila.