Svíar unnu heimsmeistaratitilinn

Svíinn Jon Arvid Rosengren stóð uppi sem sigurvegari þegar að úrslitin voru tilkynnt í heimsmeistaramóti vínþjóna sem fór fram í vikunni í Mendoza í Argentínu. Það kom í sjálfu sér fáum á óvart hjá þeim sem fylgdust með keppninni enda sýndi hann nokkra yfirburði í úrslitunum sem að fram fóru í leikhúsinu Teatro de la Independencia.

Það voru 61 vínþjónn frá 58 ríkjum sem að mættu þarna til leiks, þar á meðal Þorleifur Sigurbjörnsson eða Tolli frá Íslandi, fimmtán komust áfram í undanúrslit og 3 í sjálf úrslitin á þriðjudagskvöld. Mörg ríkjanna sendu fjölmennar sendinefndar til að styðja sína keppendur, t.d. Svíar, Kanademnn, Frakkar og Japanir en fjölmennt lið (ekki síst japanskra) fjölmiðlamanna fylgdu öllu eftir. Enda er þetta einn eftirsóttasta vegtyllan í þessum bransa og nokkrir keppendur voru að reyna við þrautina í þriðja og jafnvel fjórða sinn.

Mótin eru haldin þriðja hvert ár og það er mál manna að þau verði þyngri og þyngri með hverri keppni. Nú er svo komið að ekki er hægt að eygja von um sigur nema leggja gífurlega vinnu í undirbúnin og má taka dæmi af sænska sigurvegaranum þar, hann vann Evrópumeistaratitilinn fyrir þremur árum (sem gefur sjálfkrafa þátttökurétt) og hefur því haft þrjú ár til að undirbúa sig af kappi.

Það gætti vissulega vonbrigða hjá heimamönnum þegar tilkynnt var um hverjir hefðu komið í úrslitin enda höfðu þeir staðið þétt á bak við keppanda sinn Paz Levinson en hún starfar sem vínþjónn í París. Auk Rosengren voru það Frakkinn David Burot og írski keppandinn Dupouys ( sem er raunar frönsk líka) sem komust í úrslitin.

Gífurlegar þungar þrautir voru lagðar fyrir þau á sviðinu. Auk þess að þurfa að blindmakka fjölmargar tegundir og sinna erfiðum gestum var ein þrautin sú að fá í hendurnar myndir af sex vínflöskum með þeim upplýsingum að þetta væru vín sem að hópur vínáhugamanna ætlaði að koma með á veitingahúsið þeirra. Þau fengu eina mínútu til að skoða myndirnar af vínunum og leggja nöfn þeirra og árganga á minnið (eðli þeirra og uppruna urðu þau að þekkja) og fengu síðan nokkrar mínútur til að segja „gestunum“ frá því í hvaða röð þau mæltu með að vínin væru borin fram og hvaða rétti hvert vín væri borið fram með, allt þurfti þetta að mynda eina heild.

Rosengren er 31 árs gamall og starfar sem vínþjónn á Charlie Bird í New Yor.

Deila.