Hildigunnur bloggar: Steikt brauð með lúxussveppajafningi

Við í fjölskyldunni erum að reyna að minnka kjötát, af ýmsum ástæðum, kannski fer að verða hægt að kalla okkur flexitariana hvað úr hverju. Við erum nú samt ekkert hætt að hafa áhuga á alls konar góðum mat þannig að við erum í því að leita uppi skemmtilega og fjölbreytta kjötlausa rétti.

Datt niður á þennan í dag:

fyrir 4

  • 500 g sveppir, hvítir eða blandaðir
  • 100 g smjör
  • 1 lítill blaðlaukur
  • matskeið af marsalavíni (má nota smá hvítvín eða bara sleppa alveg)
  • 1 1/2 dl rjómi
  • 1 tsk grænmetis- sveppa- eða kjötkraftur
  • 1 tsk sojasósa
  • smá salt ef vill
  • örlítið af maízenasósujafnara
  • gott brauð

Skerið sveppina í báta og steikið í 60 grömmum af smjörinu. Ég steikti á tveimur pönnum, veitti ekki af fyrir alla þessa sveppi. Leyfið að brúnast vel, á meðalhita. Skerið blaðlaukinn (hvíta hlutann) í sneiðar og saxið létt. Þegar sveppirnir eru til, takið af pönnunni (eða sameinið yfir á aðra pönnuna ef þið notið tvær eins og ég gerði). Steikið laukinn í um 20 g af smjörinu sem eftir er. Setjið laukinn saman við sveppina.

Hellið marsalavíninu á pönnuna og látið sjóða niður þar til lítið er eftir. Setjið sveppa-laukblönduna á pönnuna aftur og hellið rjómanum yfir. Bragðbætið með krafti, sojasósu og salti ef þarf. Komið upp suðu á blöndunni og stráið yfir sósujafnara.

Steikið brauðsneiðarnar í smá smjöri þar til þær eru orðnar létt stökkar að utan og gullinbrúnar.

Setjið sveppablöndu yfir og já, um að gera að njóta! Með þessu væri örugglega frábært að fá sér gott kalt rósavín, til dæmis Muga en á svona venjulegum þriðjudegi var það kannski ekki alveg málið. Næst samt!

Deila.