Hebrard setur markið hátt

Það er hægt að snúa við blaðinu með margvíslegum hætti, líka í vínheiminum. Hebrard-fjölskyldan var lengi vel eigandi einhvers frægasta vínhúss veraldar, Chateau Cheval Blanc í Saint-Emilion og Dominique Hebrard var þar yfir víngerðinni. Undir lok síðustu aldar neyddist fjölskyldan hins vegar til að selja Cheval Blanc frá sér, ein af mörgum fjölskyldum sem hefur orðið að sjá á eftir vínhúsum sínum vegna erfðalöggjafarinnar í Frakklandi. En kaupandinn var lúxussamteypan LVMH og Dominique Hebrard hefur á þeim árum sem síðan eru liðin unnið að því að byggja upp nýtt vínveldi. Vínin hans eru nú fáanleg á Íslandi og hann kom hingað til lands um síðustu mánaðamót og kynnti þau yfir kvöldverði á MatBar.

Hebrard segir að eftir að fjölskyldan seldi frá sér Cheval Blanc hafi hann ákveðið að byggja upp ný vínhús nánast frá grunni. Þau eru nú orðin þrjú. Chateau Trianon á heimaslóðunum í Saint-Emilion, Chateau Francs á svæðinu Cote de Francs sem hann rekur ásamt vini sínum Hubert de Bouard, eiganda Chateau Angelus og Massaya, vínhús í Beeka-dalnum í Líbanon, sem hann á ásamt Daniel Brunier, eiganda Domaine Vieux-Telegraph í Chateauneuf-du-Pape.

Þetta eru frábærlega gerð vín, massív og kröftug og ekki ólíklegt að þau muni láta töluvert að sér kveða þegar fram líða stundir. Þegar Hebrard keypti Trianon töldu vínekrurnar um 10 hektara, þar af voru 6 í rækt og þrír af þeim nánast ónýtir. „Ég byrjaði því eiginlega einungis með um þrjá hektara,“ segir hann, sem hafi vissulega verið áskorun. Á síðasta einum og hálfa áratug hafa ekrurnar hins vegar verið nær alveg endurnýjaðar, nútímalegt víngerðarhús verið byggt upp og vínhúsið sendir frá sér tvö mögnuð vín. Annars vegar Chateau Trianon hins vegar annað vínið, Le Petit Trianon.

Hebrard hefur mikinn metnað fyrir hönd Trianon. Markmiðið er að næst þegar að (líklega) verði tekin ákvörðun um Grand Cru Classé-vín Saint-Emilion komist Trianon í þeirra hóp og sömuleiðis er nú verið að undirbúa byggingu á hóteli og veitingahúsi í anda Relais & Chateaux. Þar hefur hann fengið í lið með sér eiganda Grand Hotel í Bordeaux sem einnig á Trianon Palace í Versölum og verið er að ræða við Gordon Ramsay um að koma að veitingaaðstöðunni. Það er því ekki verið að ráðast á garðinn þar sem að hann er lægstur.

„Ef maður rekur eitt af stóru húsunum, Latour, Lafite eða Mouton er lífið tiltölulega auðvelt. Ég er hins vegar búinn að loka þeim kafla lífsins og nýr er hafinn. Ég set markið hátt og þó að Trianon verði aldrei að Cheval Blanc ætla ég mér það að vínið verði í forystu Grand Cru-vínanna á svæðinu eftir fimmtán til tuttugu ár.“

Deila.