Ofurvínin hans Mario

Bodegas la Horra er með yngri vínhúsum víngerðarsvæðisins Ribera del Duero á Spáni og eru þó fæst vínhúsin þar með langa sögu. Engu að síður hafa vínin frá la Horra náð að skipa sér í allra fremstu röð og var vínið Corimbo valið „Best in Show“ á Decanter World Awards, eitt vína frá Ribera.

Corimbo varð hins vegar ekki til upp úr þurru ekki síður en vínhúsið Bodegas la Horra er afsprengi eða systurvínhús Roda í Rioja. Maðurinn á bak við það vínhús heitir Mario Rotlant sem hefur miklar og sterkar tengingar við Ísland. Fjölskyldan hefur um áratugaskeið verið í hópi umsvifamestu innflytjenda Spánar á íslenskum saltfiski og Rotlant er reglulegur gestur á Íslandi og einnig í íslenskum laxveiðiám. Þeim ann hann raunar svo heitt að eitt vína Roda er nefnt Sela eftir Selá í Vopnafirði. Rotlant styrkti Íslandstengslin verulega fyrir nokkrum árum þegar að hann festi kaup á Vífilfelli en fyrirtæki hans hefur auk þess að flytja inn saltfisk verið einn helsti framleiðandi Coca Cola á Spáni og í stórum hluta Afríku.

Rotlant var staddur hér á dögunum og gafst okkur kostur á að smakka nokkur vínanna frá la Horra og Roda með honum á vínbarnum Port 9 og ræða við hann um tilurð þeirra, m.a. Corimbo 2010 sem félkk viðurkenninguna frá Decanter og Cirsion, ofurvínsins frá Roda.

Rotlant hafði lengi gengið með þann draum í maganum að setja á laggirnar vínhús í Rioja sem myndi framleiða betri vín og nútímalegri vín en nokkurt annað vínhús í Rioja. Eftir að hafa leitað lengi að stað þar sem aðstæður byðu upp á slíkt fann hann ekrur skammt frá bænum Haro sem uppfylltu þau skilyrði sem að hann setti. Vínhúsið nefndi hann Roda sem er stytting á hans eigin nafni – Mario og eiginkonun hans Carmen Daurella. Hann fékk til liðs við sig sérfræðinga sem unnið höfðu með bestu vínhúsunum í Bordeaux í Frakklandi og þótt Roda hafi farið hægt af stað skutust þau hægt og rólega upp á stjörnuhimininn. Vínin þaðan eru nú fjögur, hið fyrrnefnda Sela og síðan Roda og Roda 1. Hið  fyrra einkennist af rauðari ávexti og hið síðara af svartari ávexti – en Rotlant ákvað að nota hulsuna á flöskuháls allra vína sinna til að gefa til kynna hvort að um væri að ræða bjartari rauðan ávöxt eða þyngri og dekkri svartan ávöxt. Þegar aðstæður leyfa eru síðan bestu af bestu þrúgunum notaðar til að gera ofurvínið Cirsion, sem hefur skipað sér sess sem ekki einungis eitt besta vín Rioja heldur eitt eftirsóttasta og besta vín Spánar.

 

Deila.