Benito Santos Igrexario de Saiar 2016

Rias Baixas snýst auðvitað fyrst og fremst um þrúguna Albarino og hvítvínin þaðan eru einhver bestu vín veraldar með sjávarréttum.

Benito Santos er ein af goðsögnunum í spænska vínhéraðinu Rias Baixas í Galisíu, héraðinu þar sem Atlantshafið en ekki Miðjarðarhafið er áhrifavaldurinn. Santos, sem lést fyrir nokkrum árum, byrjaði að framleiða vín á fyrri hluta síðustu aldar úr þrúgum af ekrum afa síns, stofnaði loks sína eigin víngerð 1979 og varð smám saman einn af áhrifamestu víngerðarmönnum svæðisins og í hópi þeirra sem höfðu forystu um að Rias Baixas fengi stöðu D.O. héraðs sem er svona svipuð skilgreining og Appelation Controlée í Frakklandi, þ.e. svæðið og vín þess er skilgreint sem afmarkað víngerðarsvæði.

Igreaxario de Saiar er eitt af tveimur Albarino-vínum frá Benito Santos sem hér hafa verið fáanleg að undanförnu og er aðeins ódýrara en hið magnaða Eo. Engu að síður er þetta alveg fullburða Albarino og um flest óaðfinnanlegur. Þurrkaðar ferskjur og apríkósur í nefi, grösugt og nokkuð míneralískt, ávöxturinn í munni þykkur, sýrumikill og það vottar fyrir þægilegri, mildri seltu.

90%

2.499 krónur. Afburða vín með sjávarréttum, ekki síst grilluðum skelfiski á borð við humar.

  • 9
Deila.