Bellavista Alma Gran Cuvée Brut

Þegar Ítalía og freyðivín eru nefnd í sömu setningu er líklegt að það sem flestum dettur í hug sé Prosecco. En þótt Prosecco sé óumdeilanlega þekktasta freyðivín Ítalíu eru vínin frá Franciacorta líklega þau sem hvað mestrar virðingar njóta. Franciacorta er víngerðarsvæði í Lombardia skammt frá Brescia og það var fyrst á síðustu öld sem að freyðvínin náðu þar fótfestu. Vínbændur svæðisins nota sömu aðferðir og í Champagne, kolsýrugerjunin á sér stað í flöskunni og þrúgurnar eru yfirleitt líka þær sömu og í Champagne.

Alma Gran Cuvée frá Bellavista er með þekktari Franciacorta-vínunum og það er einmitt blanda úr Pinot Noir – Pinot Nero eins og Ítalir kalla hana – og Chardonnay þótt einnig sé um einu prósenti af Pinot Bianco bætt við blönduna.

Fölgult á lit, freyðir vel með þéttum og stöðugum bólum, nefið einkennist af þurrkuðum ávöxtum, ferskjum og sítrus  í bland við hvít blóm, vanillusykur, gerbakstr, þétt og ferskt í munni, langt.

90%

3.999 krónur. Frábært freyðivín.

  • 9
Deila.