Portvín eru „hygge“-vínin

Það er oft ekki vanþörf á í dimmasta skammdeginu að reyna að gleyma myrkrinu og kuldanum og eiga notalega stund. Við tendrum ljós eins og aldrei fyrr til að lýsa upp myrkrið og sömuleiðis getur veið afskaplega huggulegt að vita af góðri portvínsflösku einhvers staðar. Þetta eru fullkomin vín með mörgum eftirréttum og ekkert vín er líklega betra með súkkulaði. Og ekki má gleyma hversu vel portvín smella að margvíslegum ostum, jafnvel grænmygluostum. Og svo eru þetta líka hin fullkomnu vín fyrir smá „hygge“.

Portvínin draga nafn sitt af borginni Porto í Portúgal við mynni Douro, þar sem þetta magnaða fljót sameinast Atlantshafinu. Vínþrúgurnar eru ræktaðar í Douro-dalnum um klukkustundar akstur frá borginni í snarbröttum og grýttum fljótshlíðunum.

Þar á víngerðin sér einnig stað en fljótlega eftir að víngerðinni lýkur á haustin eru vínin flokkuð eftir því í hvaða gæðaflokk þau eiga að lenda. Efst tróna árgangsportvínin eða Vintage Port sem einungis eru framleidd í mjög takmörkuðu magni allra bestu árin. Þau eru sett á flösku mjög ung eða tveggja ára og geymast nær endalaust. Síðan koma Tawny Port sem eru vín í hæsta gæðaflokki sem eru látin liggja á tunnum árum og áratugum saman áður en þau eru sett á flösku og breytast þá ekki. Late Bottled Vintage Port oft nefnd LBV eru árgangsvín sem eru síuð og sett á flösku fjögurra til sex ára gömul og þroskast þá ekki frekar. Yfirleitt eru þetta vín í mjög háum gæðaflokki sem eru notuð í LBV. Þau urðu fyrst til á sjötta áratug síðustu aldar þegar vínhúsin sátu uppi með meira magn af víni í Vintage-gæðum en þeim var heimilt að nota í Vintage. Hver árgangur af Vintage má ekki vera meira en 72 þúsund lítrar (sem er ein risastór áma) og því var afgangurinn notaður í LBV.

Tawny-vínin eru síðan sérkapituli út af fyrir sig. Þessi einstöku vín sem eru blönduð úr vínunum sem hvíla í tunnunum í Vila Nova de Gaia, systurborg Porto, eru gullbrún á lit, oxideruð og flókin eftir áratuga tunnugeymslu. Þau bestu eru margslungin með hnetu og eikarkeim í bland við þurrkaða ávexti, unaðsleg vín með eftirréttum og ostum, hvort sem að blandan er 10, 20, 30 eða 40 ára að meðaltali. Þetta eru vín sem hægt er sökkva sér ofan í og pæla í, ef kampavín eru vín fyrir veislur þá eru portvínin vín fyrir íhugun og afslöppun, það sem Danir kalla hygge.

Þið getið lesið meira um þessi mögnuðu vín með því að smella hér.

Það er hægt að fá ágætis portvín í flestum flokkum hér. Porvínshús sem flestir þekkja er Sandeman’s sem auðþekkjanleg eru vegna skikkjuklædda mannsins á flöskumiðanum sem hefur verið tákn Sandeman um aldabil. Flest þekktu portvínshúsin bera ættanöfn stofnenda og oft eru þetta engisaxnesk nöfn eins og Sandeman’s, Graham’s, Taylor’s og Cockburn’s en líka portgúgölsk eins og Fonseca, svo nefnd séu önnur frábær portvínshús.

Hér eru nokkur sem við mælum með úr búðunum.

Osborne Late Bottled Vintage Port 2010 er heitt og djúpt, sýnir góðan þroska í þurrkuðum og sætum ávexti, plómur, sveskjur og bláber, smá blómaangan.

4.499 krónur. Frábær kaup.

 

 

 

Sandeman’s Vau Vintage 1999 er „annað“ vínið í árgangsvínunum frá Sandeman’s og gefur ekki bara mikið fyrir peninginn heldur er einnig árgangsportari sem hægt er að njóta fyrr en margra annarra. Já það er 19 ára gamalt en það telst ekki hár aldur í heimi árgangsportvínanna. Ágengt með kraftmiklum og djúpum ávexti, svolítið rauðum, þarna er töluvert af kirsuberjum. Langt, djúpt og elegant. Reynið t.d. með Cheddar-osti.

5.999 krónur. Frábær kaup.

 

 

 

Gramham’s Finca dos Malvedos 2004 er magnað árgangsportvín frá þessu magnaða portvínshúsi. Nær svart á lit, liturinn ógegnsær, nefið margslungið, sætt, kryddað með endalausum ávexti. sólberum, krækiberjum. Umhellið í karöflu og njótið yfir nokkra daga ,jafnvel viku.

 

7.298 krónur. Magnað vín.

 

 

 

Graham’s 10 ára Tawny er unaðslegt og þokkafullt portvín, liturinn ljósbrúnn, angan af karamellu, þurrkuðum ávöxtum, fíkjum og negul, kraftmikið og þétt. Portúgalar sjálfir drekka oft Tawny í lok eða kjölfar máltíðar og þá gjarnan örlítið kæld, kannski 16-18 gráður. Og ekki spillir fyrir að Tawny vín má vel geyma í 1-2 mánuði eftir að flaskn hefur verið opnuð. Helst í kæli ef geyma á lengi.

5.499 krónur. Frábær kaup, unaðslegt vín.

 

 

 

Gerard Bertrand Banyuls 2012.  Það eru einnig til afburða styrkt vín eða vin doux frá Frakklandi. Best eru þau frá Banyuls sem er víngerðarhérað skammt frá Perpignan við Miðjarðarhafsströndina rétt við spænsku landamærin. Þau eru nokkuð lægri í áfengi en púrtvínin eða 16%. Þetta Banyuls er frá Gerard Bertrand sem hefur gert mikið til að halda nafni þessara vína á lofti. Það er önnur áferð en á portvínunum, mýkra og mildara, þurrkaðir ávextir, sveskjur og fíkjur, þægilega kryddað, mjúkt og jólalegt.

3.399 krónur. Algjörlega frábær kaup.

 

Deila.