Trimbach Pinot Gris Reserve Personelle 2013

Trimbach-fjölskyldan hefur komið við sögu vínræktar í Alsace í á fimmtu öld. Það var hins vegar „ekki fyrr“ en á nítjándju öld sem að vínin frá Trimbach slógu rækilega í gegn þegar Fréderic-Emil Trimbach fór með nokkur sýnishorn á heimssýninguna í Brussel árið 1898. Alla tíð síðan hefur þetta fjölskyldufyrirtæki í bænum Ribeauville verið í röðum fremstu framleiðenda héraðsins.

Einkenni Trimbach-vínanna er þroskaður og mikill ávöxtur, ber sem eru tínd seint og ná fullri dýpt viðkomandi þrúgu en þó aldrei framleitt með neinum votti af sætu. Rerserve Personelle er ein af topp-línunum frá Trimbach og þetta Pinot Gris-vín er frábært dæmi um ekki bara stíl hússins heldur líka hvers vín héraðsins eru megnug.

Það er mikið um þurrkaðan ávöxt í nefinu með allt að því botrytis-einkennum, fíkjur, ferskjur, sætar perur og hunang, það er skrjálfþurrt og hefur mjúka og þykka áferð með þéttri sýru sem veitir því yndislegan ferskleika, vottur af seltu og steinefnum í lokin. Stórkostlegt matarvín.

100%

4.499 krónur. Frábær kaup. Stórkostlegt matarvín

  • 10
Deila.