Emilio Moro 2015

Emilio Moro sem hefur aðsetur í smáþorpinu Pesquera er eitt af helstu vínhúsunum í Ribera del Duero, einhverju besta rauðvínshéraði Spánverja. Vínþrúgan í Ribera heitir Tinto Fino og er í raun sú sama og víða annars staðar, t.d. í Rioja, er nefnd Tempranillo.

2015 var heitt og þurrt ár í Ribera og vínin djúp og þroskuð. Litur vínsins er nokkuð dökkur og þéttur, fjólubláir tónar, heitt, örlítið sprittað, dökk og þroskuð ber í nefi, kirsuber og bláber, renna vel saman við ristaða eikina sem bætir við reyk, kandíssykri og smá vanillu. Vínið hefur ungt yfirbragð, þetta er vín sem vel má geyma í 2-3 ár og hefur ella gott af hressilegri umhellingu.

90%

3.399 krónur. Frábær kaup. Þetta er hörkufínt nautakjötsvín og það borgar sig að umhella víninu.

  • 9
Deila.