Tenuta Sant Antonio Monti Garbi 2014

Monti Garbi er vín frá Castagnedi-bræðrunum í Valpolicella á Norður-Ítalíu. Það er flokkað sem Valpolicella Classico Superiore og er þar að auki Ripasso-vín. Superiore-vínin eru geymd á viðarámum í ár hið minnsta. Ripasso er það hins vegar kallað þegar að þrúgumassanum, sem verður eftir við framleiðslu á Amarone-vínum, er blandað saman við Valpolicella-vín og gerjunin látin fara í gang á nýjan leik.

„Ripasso“-merkingin finnst manni oft vera tilraun til að fela miðlungsvín með sætu en þetta er alvöruvín, vandað og þurrt fyrir stílinn. Dökkrauður litur, angan mjög krydduð og margslungin, allt frá þroskuðum kirsuberjum yfir í eins konar kryddlíkjöraangan líkt og finna má t.d. í chartreuse. Vínið er mjög langt og hefur góða dýpt en jafnframt merkilega lipurt og ferskt. Með betri árgöngum af þessu víni sem við höfum smakkað.

90%

2.799 krónur. Frábær kaup. Með kröftugum pastaréttum, ostum og réttum á borð við Osso Buco.

  • 9
Deila.