Marbella-kjúklingur með döðlum og ólífum

Það er -mið-austurlenskur bragur yfir þessum kjúklingarétti sem er byggður á uppskrift frá meistaranum Ottolenghi sem sjálfur byggði sína uppskrift á rétti sem var að finna í hinni goðsagnakenndu matreiðslubók The Silver Palate er opnaði augu marga New York-búa fyrir matarmenningu Miðjarðarhafsins við upphaf níunda áratug síðustu aldar. Rétturinn hét Chicken Marbella og þar eru notaðar sveskjur en ekki döðlur eins og hér.

  • 1,5 kg kjúklingalæri/kjúklingaleggir
  • 1 dl vínedik
  • 1 dós af grænum steinlausum ólífum
  • lúka af döðlum, skornum í tvennt, helst Medjool-döðlum (fást t.d. í Costco)
  • 2 msk kapers
  • 6 hvítlauksgeirar, saxaðir gróft
  • lúka af fersku gróft söxuðu óreganó
  • lárviðarlauf
  • 1,5 dl hvítvín
  • salt og pipar

Blandið ólífum, kapers, óreganó, lárviðarlaufi,  hvítlauk, döðlum og ediki saman við kjúklingabitana í skál. Saltið og piprið.  Látið kjúklinginn liggja í leginum í ísskáp yfir nótt.

Setjið í ofnfast fast og hellið hvítvíninu saman við. Eldið í ofni við 180 gráður í um klukkustund.

Deila.