Finca Nueva Reserva 2010

Miguel Angel de Gregorio er í hópi þeirra einstaklinga sem hafa verið hvað fremstir í flokki nýbylgjunnar í Rioja á undanförnum tveimur áratugum. Hann hóf ferilinn hjá vínhúsinu Bodegas Bretón þar sem að hann vann m.a. að því að þróa fram vínin Dominio de Conte. Hann stofnaði síðan sitt eigið vínhús, Finca Allende, sem á skömmum tíma haslaði sér völl sem eitt af þeim mest spennandi í héraðinu með vínum á borð við Aurus og Calvario.

Finca Nueva er annað verkefni sem hann hefur ráðist í þar sem áherslan er á vín sem eru aðgengilegri og ódýrari en stóru vínin frá Allende. Nuevea er staðsett í Rioja Alta og tók nýlega yfir víngerð Bodegas Bretón þar sem de Gregorio hóf ferilinn.

Reserva 2010 er hreint Tempranillo-vín og var látið liggja í tvö ár á franskri eik, en ekki amerískri líkt og algengt er í Rioja. Það er dökkt að yfirbragði, krækiber og plómur í nefi, svolítið sprittað og ristað, nokkur jörð. Í munni ferskt, þægileg sýra, þurrt og langt. Vel gert og flott vín.

90%

3.449 krónur. Frábær kaup. Með rauðu kjöti og bragðmiklum réttum.

  • 9
Deila.