Willm Clos Gaensbrænnel Grand Cru Kirchberg de Barr Gewurztraminer 2014

Kirkjuhæðin við Barr eða Kirchberg de Barr er ein af Grand Cru-ekrum Alsace-héraðsins en í þann flokk falla alla bestu vínekrur héraðsins sem í gegnum aldirnar hafa sýnt fram á einstök sérkenni. Fyrir tugmilljónum ára var þetta svæði undir hafi og smátt og smátt myndaðist jarðfræðilega margslunginn jarðvegur á hafsbotninum. Þessi jarðvegur sem nú má finna í jarðlögunum í hlíðunum upp af Rín myndar kjöraðstæður til vínræktar.

Ekran Kirchberg er á hæð sem teygir sig upp frá Saint Martin-kirkjunni í bænum Barr en þar er vínhúsið Maison Willm einnig til húsa. Clos Gaensbrænnel er stórt og mikið hvitvin, liturinn gullinn, í nefinu þurrkaður og sætur ávöxtur, sítróna, greip og aprikósa, í munni er vínið þykkt og feitt, það loðir við góminn en hefur líka bjartan ferskleika. Unaðslegt jafnvægi sýru og sætu.

100%

3.899 krónur. Frábær kaup. Þetta er flott vín með foréttunum við veisluborðið á þessum árstíma. Með graflaxi, hreindýrapate eða grafinni gæs.

  • 10
Deila.