Marques de Caceres Reserva 2014

Saga og örlög Rioja á Spáni og Bordeaux í Frakklandi fléttast saman á margvíslegan hátt. Eitt dæmi um það er saga Forner-fjölskyldunnar sem að flúði til Frakklands þegar að spænska borgarastyrjöldin var í hámarki. Enrique Forner (sem kallaði sig Henri í Frakklandi) hafði verið í vínbransanum áður en hann flúði land og hélt því áfram í Frakklandi. Hann byrjaði með vínsölu í Rhone og Loire og endaði á lokum með því að kaupa tvö þekkt vínhús á Médoc-skaganum í Bordeaux, annars vegar Chateau Camensac og hins vegar Chateau Larose Trintaudon.

Það kom hins vegar að því að ræturnar á Spáni toguðu fjölskylduna til baka og hún ákvað að koma sér fyrir í Rioja, ekki síst vegna tengsla víngerðar svæðisins við Frakklands. Árið 1970 stofnaði Forner vínhúsið Marques de Caceres og fékk Bordeaux-goðsögnina Emilie Peynaud til að aðstoða við víngerðina. Peynaud hafði tekið þátt í því að umbylta víngerð í Bordeaux og fól Forner honum að gera slíkt hið sama í Rioja.

Caceres er nú með þekktari vínhúsum Rioja. Reserva-vínið sem nú er í vínbúðunum er frá hinum stórfína 2014 árgangi. Það er dimmrautt og ungt á lit, angan krydduð, þykk, þar eru þroskuðbrómber og kirsuber, vindlakassi, örlítið leður og vanilla. Þetta er kröftugt og aflmikið vín, mikil tannín, vínið þykkt, langt og þétt. Má vel umhella.

100%

2.990 krónur. Frábær kaup. Fær hálfa auka stjörnu fyrir frábær gæði miðað við verð. Þetta er vel fyrir vel hangið nautakjöt og lambakjöt, jafnvel hreindýr.

  • 10
Deila.