Tignanello 2017

Tignanello var tímamótavín á sínum tíma, þetta er hið upprunalega „Súper-Toskana“-vín en það var árið 1970 sem að Piero Antinori, áhrifamesti einstaklingur ítalskrar víngerðar, ákvað að gera einnar ekru vín á þessari ekru er áður hafði verið skilgreind sem Chianti Classico. Við ræddum um þetta og margt annað við Antinori yfir hádegisverði í Flórens fyrir allnokkrum árum og má lesa það viðtal með því að smella hér.

Enn í dag er Tignanello með flottustu vínum Ítalíu og verður eiginlega bara betra og betra. Þetta 2017 vín er fyrst og fremst Sangiovese með viðbót af Cabernet þrúgunum Sauvignon og Franc, það er dimmrautt, massívt, kryddaður dökkur, ávöxtur, kirsuber, plómur, það þarf tíma til að opna sig en þá springur það út, þétt, mikill viður, þarna eru líka mynta og lakkrís, stórt og öflugt, þurrt, míneralískt, tannín mikil og mjúk.

100%

12.998 krónur. Frábær kaup. Með villibráð eða nauti.

  • 10
Deila.