Veuve-Clicquot Rosé Brut

Veuve Clicquot er nefnt eftir ekkjunni frægu Nicole-Barbe Clicquot-Ponsardin sem tók við fyrirtæknu er eiginmaður hennar lést árið 1806. Hún var þá einungis 27 ára gömul. Í stað þess að einbeita sér áfram að mörkuðum í Frakklandi og Bretlandi hóf hún landnám í Rússlandi og varð kampavín hennar mest selda kampavínið þar í landi í hálfa öld.

Kjallarameistari hennar þróaði fram rémuage -tæknina sem í dag er notuð við alla kampavínsframleiðslu og í stjórnartíð hennar varð fyrirtækið að stórveldi. Er hún lést 1866, 89 ára að aldri, nam ársframleiðslan 3 milljónum flaskna á ári. Nánast ekkert kampavínsfyrirtæki getur státað af jafnmörgum vínekrum í eigin eigu á öllum helstu svæðum Champagne.

Þekktast er Veuve auðvitað fyrir Brut-kampavínið með gula miðanum en rósavínið er ekki síður rótgróið. Það eru rúm 200 ár liðin frá því að Clicquot-ekkjan blandaði fyrsta rósakampavínið sitt eða árið 1818 sem gerir það að einu fyrsta rósakampavíninu sem heimildir geta til um. Blandan í dag er áþekk þeirri sem notuð er í „gula miðanum“ með Pinot Noir-ríkjandi eða 55% af blöndunni. Að auki er síðan um einn tíundi af víninu rauðvín úr Pinot Noir sem bætt er við. Þetta er ferskt og fínlegt kampavín, rauður berjaávöxtur ræður ríkjum, hindber, jarðarber og kirsuber leika um í nefinu, þarna má líka finna smá þeyttan rjóma og rósablöð, vínið er þétt og ferskt, nokkuð langt, þurrt með míneralískri seltu í lokin. Kampavín sem vel má bera fram með mat.

90%

8.299 krónur. Frábær kaup. Sem fordrykkur eða með skelfisk, humar eða ostrum.

  • 9
Deila.