Luis Canas Reserva 2014

Canas-fjölskyldan hefur stundað vínrækt um tveggja alda skeið og árið 1928 var vínhúsið Bodegas Luis Canas stofnað. Ekrur fjölskyldunnar eru hátt yfir sjávarmáli á svæðinu Rioja Alavesa og er lögð rík áhersla á að vínræktin sé eins græn og náttúruvæn og kostur er.

Reserva-vínið er framleitt úr þrúgunni Tempranillo með örlítilli viðbót (5%) af Graciano. Það er látið liggja í fjórtán mánuði á tunnum úr blöndu af franskri og amerískri eik áður en átöppun fer fram.

Liturinn er svarblár og djúpur, nefið nokkuð lokað í fyrstu, dökkur, svartur ávöxtur, krækiberjasafi, sólber, eikin framarlega, sæt vanilla og kókos. Þurrt, þétt og tannískt, djúpt og mikið, þetta er vín sem á mörg ár eftir. Það á a.m.k. 3-5 ár eftir í kjörþroska. Á þessu stigi er best að gefa því góðan tíma til að opna sig og helst umhella. Svakalega flott Reserva á stórkostlegu verði miðað við gæði.

100%

3.499 krónur. Frábær kaup.

  • 10
Deila.