Masi Costasera Amarone 2015

Masi er eitt af stóru nöfnunum á Valpolicella-svæðunum en heiti vínhússins kemur frá dalnum Vaio dei Masi sem að Boscaini-fjölskyldan eignaðist á átjándu öld. Masi státar einnig af því að hafa umsjón með óðalssetri Aligihieri-fjölskyldunnar sem hefur búið á þessum slóðum frá fjórtándu öld, þekktasti meðlimur þeirrar fjölskyldu er skáldði Dante. Undanfarna áratugi hefur Sandro Boscaini stjórnað Masi og byggt upp mikið Amarone-veldi. Masi er með einhverja breiðustu línu Amarone-vína sem fyrirfinnst, framleiðir fimm ólík slík vín. Amarone-vín eru gerð úr þrúgum sem eru þurrkaðar eftir tínslu og vínin eru mikil um sig, hafa oft svolítið „sætt“ yfirbragð í nefi en ekta Amarone-vín eru engu að síður þurr í munni.

Costasera er oft nefnt sem grunnviðmiðið í Amarone, vínið sem leggur línuna fyrir önnur. Þetta er ekki dýrasta eða stærsta Amarone-vínið en afskaplega vandað og vel gert. Það hefur dökkt yfirbragð, í nefinu áberandi fjólur, kakó og dökkt súkkulaði, þurrkuð kirsuber og plómur, mild anís-angan, þykkt og mjúkt í munni, míneralískt, mjög þurrt og ferskt. Frábært vín.

100%

4.299 krónur. Frábær kaup. Með Osso Buco eða mildri villibráð.

  • 10
Deila.