
Svo kölluð appelsínugul vín fóru að skjóta upp kollinum fyrir nokkrum árum á vinsælum vínbörum og veitingahúsum í Evrópu og Bandaríkjunum en hafa þó litlum mæli ratað hingað heim. Þau eru hins vegar ekki einungis tískufyrirbrigði, á víngerðarsvæðum í t.d. Georgíu og Slóveníu hafa appelsínugul vín verið framleidd í árþúsundir. Appelsínugula nýbylgjan hófst fyrir á öðrum áratug og voru nokkur vínhús í Friuli (sem hefur landamæri að Slóveníu) leiðandi í því sambandi.
En hvað er þetta eiginlega? Í stuttu máli má segja að appelsínugul vín séu hvítvín sem eru framleidd eins og rauðvín, það er berjahýðin eru í leginum við víngerjunina. Við fáum því hvítvín sem hafa sömu áferð og rauðvín. Til gamans má geta að ef við snúum þessu við og framleiðum rauðvín eins og hvítvín þá verður útkoman …. rósavín.
Orange Gold frá Gerard Bertrand er framleitt úr nokkrum þrúgum, Chardonnay, Grenache Blanc, Viognier, Marsanna, Mausac og Muscat. Liturinn er djúpur, dimmgulur með rauðgulum tónum. Nefið er sneisafullt af þurrkuðum ávöxtum, appelsínum, ferskjum og apríkósum, mun þurrara í munni en maður á von á, þykkt, tannískt og ferskt með þægilegum beiskleika.
3.199 krónur. Frábær kaup. Spennandi og matvænt vín. Reynið t.d. með indverskum mat eða ostum.