Luis Canas Reserva 2015

Canas-fjölskyldan hefur stundað vínrækt á svæðinu Rioja Alavesa í um tveggja alda skeið og víngerð undir eigin nafni allt frá árinu 1928 þegar vínhúsið Bodegas Luis Canas stofnað. Ekrur fjölskyldunnar eru hátt yfir sjávarmáli í Rioja Alavesa og er lögð rík áhersla á að vínræktin sé eins græn og náttúruvæn og kostur er.

Árið 2015 var góður árgangur í Rioja, aðstæður heitar og þurrar út uppskeruna sem var óvenjulega snemma á ferðinni, henni lokið um miðjan október hjá nær öllum vínhúsum. Tempranillo er auðvitað ríkjandi í þessu víni en það er líka 5% Graciano í blöndunni og eikin bæði frönsk og amerísk.

Þetta vín hefur að okkar mati verið með bestu kaupunum í sínum verðflokki Rioja-vína og það mat stendur óhaggað. Liturinn dökkur, þéttur og djúpur, ávöxturinn í nefinu dökkur og sætur, krækiber og svört kirsuber, umvafinn sætri, eikinni, mildri vanillu og kaffi, vottur af anís. Kröftugt en fágað, tannín þétt, mild, áferðin þurr og nokkuð míneralísk.

100%

3.690 krónur. Frábær kaup. Með rauðu kjöti, lambi eða nauti.

  • 10
Deila.