Tua Rita Redigaffi 2020

Tua Rita-vínin byrjuðu sem tveggja hektara víngerð hjóna sem ætluðu að dunda sér við víngerð eftir að þau hættu að vinna en urðu fljótt algjör „költ“-vín og með þeim dýrari sem maður finnur á Ítalíu ekki síst þetta vín hér, Merlot-vínið Redigaffi sem varð líka fyrsta ítalska vínið til að f´á fullt hús stiga eða 100 punkta skor hjá Robert Parker. Það byrjaði sem tilraun hjá þeim hjónum, þau tóku tvær barrique-eikartunnur frá árið 1994 af þeim hluta sem þeim þótti vera bestur og töppuðu sérstaklega á flösku.

Allt breyttist þegar 2000 árgangurinn fékk punktana 100 en fjölskyldan (tengdasonurinn tók við rekstrinum fyrir nokkrum árum) hefur ávallt lagt gífurlegan metnað í að halda gæðunum í toppi. Einungis eru framleiddar 9000 flöskur af Redigaffi árlega og það getur verið erfitt að finna þær, þetta er með eftirsóttustu vínum Ítalíu.

Liturinn er svarblár og djúpur, nefið reyndist merkilega opið, súkkulaðihjúpuð kirsuber, sultuð bláber, miðjarðarhafsgróður, það sem Frakkar kalla garrigue en Ítalir macchia mediterranea, villt rósmarín og salvía, blóm, tóbakslauf og lakkrís. Kröftug og öflug tannín, sýrumikið, þykkt. Gefið þessu víni tími, felið það í vínkjallaranum í nokkur ár og leyfi því að þroskast. Í millitíðinni má alltaf njóta af litla bróðurnum, Rosso dei Notri.

100%

31.874 krónur. Stórkostlegt vín. Geymið í 5-10 ár.

  • 10
Deila.