
Gerard Bertrand er einhver áhrifamesti víngerðarmaður Frakklands og segja má að hann hafi persónulega umbylt ásýnd og ímynd Languedoc í suðurhluta Frakklands á síðustu áratugum með því að sýna fram á hversu stórkostleg vín er hægt að framleiða þar. Bertrand á ein sautján vínhús á mismunandi svæðum í Languedoc og vínin sem framleidd eru á þeim skiptast í yfirleitt tvo eða þrjá flokka. Fyrsta er það hið venjulega vín hússins, síðan kemur „Grand Vin“ og loks er í sumum tilvikum framleitt vín sem kemur af afmörkuðum hluta eignarinnar þar sem aðstæður eru einstakar. Le Viala er eitt þessara ofurvína og er framleitt í vínhúsinu Charteau Laville-Bertrou á svæðinu La LIviniére í Minervois en það er einmitt á þessu svæði sem að vínhúsið Clos d’Ora, líklega besta vín Suður-Frakklands, er framleitt. Það má einnig nefna að allar ekrur á vínhúsunum eru ræktaðar með bíódýnamískum hætti.
Le Viala er blanda úr Syrah, Grenache og Carignan, nánast ýkt vín það er svo dökkt, massað og mikið, Liturinn ógegnsær og nefið er hyldjúpt,sultuð bláber og krækiber, cassis og blóm, kryddað með dæmigerðu suður-frönsku „garrigue“-ívafi, angan af villtu kryddjurtunum sem vaxta í kringum ekrurnar. Eikin er enn áberandi, vínið míneralískt og langt, tannín mjúk og vínið hefur mikinn ferskleika. Þetta er vínið fyrir kröftugu villibráðina, ekki síst rjúpuna og ræður við allt meðlæti, feitt, sært og súrt.
10.499 krónur. Frábær kaup fyrir þetta ofurvín.
-
10