Sagan og Jack

img_2504Hin finnska Elsa Holmberg nam sagnfræði í Bretlandi en helgar starfskrafta sína því að fræða Norðurlandabúa um viský frá Tennessee og Kentucky. Það er margra alda hefð fyrir viský-framleiðslu eða bourbon eins og það er einnig nefnt í þessum ríkjum Bandaríkjanna og segir hún að það hafi ekki síst verið þessi mikla saga sem hafi höfðað til sagnfræðingsins í sér.

Elsa byrjaði að spreyta sig sem barþjónn í fyrsta skipti fyrir sjö árum og segist fljótlega hafa fengið mikinn áhuga á að ná sem mestum tökum á faginu og taka þátt í kokteilkeppnum.  Þaðan lá leiðin til London þar sem að hún varð vörumerkjastjóri eða „brand ambassador“ fyrir finnska Finlandia-vodkað. Finlandia er í eigu Brown-Forman-samsteypunnar sem á mörg þekkt vörumerki og þegar finna þurfti vörumerkjastjóra fyrir Jack Daniel’s og Woodford á Norðurlöndunum var leitað til Elsu og hún flutti til Stokkhólms.

Elsa segir að eitt af því sem hafi höfðað hvað mest til hennar varðandi Jack Daniel’s og Woodward hafi verið sagan. „Þegar að einhver tegund nær miklum vinsældum og mikilli frægð eiga margir það til að líta á þetta sem einhverja fjöldaframleiðslu. Við erum hins vegar enn að framleiða hvern einasta dropa af Jack á sama stað og þetta viský varð fyrst til fyrir 150 árum þegar að Jasper „Jack“ Daniel stofnaði eimingarhúsið sitt í Lynchburg í Tennessee.“

Jack Daniel’s hefur löngum átt sér tryggan aðdáendahóp og er vinsælasta ameríska viskýið – eða bourbon- bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Ríkur þáttur í starfi Elsu er að ferðast um Norðurlöndin og fræða barþjóna um drykkinn og hvernig hægt er að nota hann í margs konar drykki – þótt sá vinsælasti verði líklega alltaf Jack og kók. Í heimsókn sinni hingað hélt hún námskeið fyrir barþjóna þar sem sérstök áhersla var lögð á nýja útgáfu af Jack, Jack Daniel’s Honey, þar sem krydduðum hunangslíkjör hefur verið blandað saman við klassískan Jack.

Toppurinn eru síðan Single Barrel-viský þar sem viský úr einstaka tunnum er tappað á flöskur og getur því verið nokkur munur á tunnum.

Elsa vinnur hins vegar ekki einungis með Tennessee-viský heldur einnig hið klassíska bourbon Wooford frá Kentucky. Það er sögufrægt viskýhús og það eina í Kentucky sem að eimar ennþá samkvæmt skosku „pot-still“-aðferðinni. Viský hefur verið eimað á þessum stað frá því á átjándu öld og var eimingarhúsið sett á þjóðminjaskrá Bandaríkjanna árið 2000. Það hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir í gegnum söguna en var endurreist undir lok síðustu aldar af Brown-Forman og Woodford-línan sett á markað.

Deila.