Haukur bloggar: Meðmæli í Boston

Það er ekki þverfótað fyrir góðum bjór í Boston og matarmenningin er mögnuð. Þetta eru tvær fastar breytur sem verður ekki haggað og ef eitthvað mun breytast á næstu árum að þá mun það bara batna.

Mikið hefur verið rætt um ákveðna útfærslu af hinum margrómaða IPA bjórstíl sem hefur fengið viðurnefnið „New England IPA“ en á undanförnum árum hafa mögnuð brugghús á New England svæðinu endurskilgreint þennan stíl. IPA frá þessum brugghúsum er ótrúlega skýjaður, ber mikinn ávaxtakeim og er í mun meira jafnvægi en frændur hans á vesturströnd Bandaríkjanna.

Gríðarlega góð matarmenning hefur einnig einkennt Boston í áratugi og veitingamenn eru að opna staði sem eru í senn framúrstefnulegir, fallegir og framandi.

Nokkrir staðir, barir og brugghús voru tekin út í Boston fyrstu helgina í september.

The Salty Pig

Eftir langan dag flugs, bílferða og verslunarferða var stefnan sett á The Salty Pig sem er í Back Bay hverfinu. Staðurinn hefur verið starfræktur í 5 ár og hefur hróður hans aukist á undanförnum árum og öðlast frægð fyrir mikla áherslu á fersk hráefni, magnaða osta, smárétti, kokteila, bjóra og pizzur.

Sæti voru laus úti og þrátt fyrir að það væri orðið dimmt var þetta haustkvöld í Boston óvenju heitt miðað við árstíma. Á bakvið næstu hús sást í Prudential Center og var miðbær Boston ljósum baðaður á þessu fallega kvöldi. Lóðbeint var vaðið í pizzurnar sem eiga að vera í hópi betri flatbaka í Boston. Eldbakaðar, mjög grænar með framandi ostum og áleggjum. Nú er óvíst hvort það var hungrinu og aðstæðinum að kenna en þær voru hreint magnaðar. Scamorza ostur, eggaldin, brokkolí og chili frá Calabria héraði á Ítalíu gerði útslagið.

Salty Pig er leggur mikla áherslu á handverksbjór og er einn af fáum stöðum sem bjóða endrum eins upp á bjór frá Trillium Brewing. En meira af því síðar. Hins vegar má geta að Trillium Double Dry Hopped Melcher Street IPA rann ótrúlega ljúft niður og skal engan undra, hann telst til allra bestu IPA í heiminum.

Coda

Coda hefur, eins og Salty Pig, verið margrómaður fyrir góða drykki og mat meðal heimamanna, en Coda er staðsettur mjög nálægt Salty Pig. Coda er einnig í eigu sama hóps og stendur að baki Salty Pig og voru því væntingar miklar. Öðruvísi áherslur eru hins vegar á Coda en þar eru mikil áherslu lögð á „local“ hráefni sem telja má til nútíma bandarískrar matarmenningar.

Coda er lítill staður, mjög lifandi og bjartur. Þjónustan framúrskarandi og maturinn enn betri. Ostrur, önd, magnaður hamborgari og svartþorskur. Það skal tekið fram að öndin kom fyrir mistök á borðið en fékk engu að síður að vera áfram á borðinu þar sem einfaldlega var ekki hægt að sleppa því að borða hana, svo góð var hún.

Líkt og Salty Pig voru „local“ handverks bjórar í aðalhlutverki í drykkjarvali og ekki hægt annað en að panta Trillium bjór.

Stephanies On Newbury

Stephanies liggur við aðal verslunargötu Boston, Newbury Street. Gríðarlega vinsæll staður í brunch og liggur áherslan sem fyrr af þeim stöðum sem voru heimsóttir, í bandarískri matargerð. Margt er um manninn um helgar og talsverð bið eftir borði. Maturinn er fínn, vel útilátinn en aðeins í dýrari kantinum. Hins vegar er hann á besta stað og frábært að sitja úti og fylgjast með mannlífinu.

Alden & Harlow

Mikil vinna var lögð í að finna góðan veitingastað í Cambridge. Það var úr miklu úr að moða og með miklum fyrirvara var pantað borð á Alden & Harlow sem nánast allir sem rætt var við mæltu með.

Alden & Harlow er í eigu kokksins Michaels Scelfo.  Hæfileikann í eldhúsinu hafði Scelfo ekki langt að sækja en móðir hans var kokkur. Leið hans lá til Western Culinary Institute og þaðan beint til Oregon á hinn margrómaða Wildwood Kitchen. Síðan lá leiðin til Boston þar sem hann vann á fjölda staða þar til Alden & Harlow varð hans aðal staður. Mikil áhersla er á allt grænt og mat frá hjartanu. Engar reglur og einfaldlega matur eins og Scelfo myndi bjóða upp á heima hjá sér. Alden & Harlow hefur fengið fjölda viðurkenninga eins og „Best New Restaurant“ í Boston Magazine, „Best of The New“ í Boston Globe og undanúrslit hjá James Beard Foundation Awards. Væntingum var því ekki stillt í hóf.

Mikil áhersla er á smárétti á staðnum og mælt er með því að panta marga og deila. Það er fyrirkomulag sem hentar vel en eldhúsið var afar snöggt að dæla út guðdómlegum réttum á met tíma. Kanínan með gráðosti sló í gegn og dásemdar grænmetisréttur með eggaldin var ótrúlega góður. Ekki var stigið feilspor í þjónustu þrátt fyrir að staðurinn væri fullur út úr dyrum. Magnaður veitingastaður en þess má geta að panta þarf borð með talsverðum fyrirvara.

Mikil áhersla er einnig lögð á vín, kokteila, bourbon og bjór og skal engan undra að valið er ákaflega vandað.

Trillium Brewing

Síðast en ekki síðst en þarf að nefna þetta brugghús á nafn. Líklegast eitt eftirsóttasta brugghús austurströndar Bandaríkjanna og eitt heitasta brugghúsið um þessar mundir í „New England IPA“ æðinu. Trillium er lítið fjölskyldu fyrirtæki sem byrjaði að gera bjóra í „Saison“ stíl og lagði JC Tetreault, bruggari og eigandi, mikla áherslu á jafnvægi og miklar ger pælingar. Á síðasta ári virðist hann hafa rambað á eitthvað magnað þegar hann fór meira að feta sig áfram í Pale Ale og IPA og innan skamms voru biðraðir þar sem fólk beið eftir bjór.

Þetta æði sem „New England IPA“ er einkennist af útliti bjórsins en bjórinn er allur mjög skýjaður. Gríðarlegur ávaxtakeimur er einnig af bjórunum þrátt fyrir að ávexti hafi ekki verið bætt við. Samspil gers og humla leikur lausum hala og eru hér eflaust á ferð það brugghús sem stendur fremst í gerð þessara bjóra.

Þeir eru með litla búð í brugghúsi sínu í Fort Point í Boston, skammt frá miðbænum. Afgreiðsla er hröð en einungis eru keypt „to go“. Ef fólk vill sitja og smakka að þá eru þeir með bruggbar í Canton sem er bær í útjaðri Boston. Það skal hinsvegar tekið fram að opnunartímar geta verið undarlegir og þarf að fylgjast með á heimasíðu þeirra hvenær það er opið og hvað er til. Það má þess geta að allir Pale Ale og IPA koma í dósum og því er þetta afar gott tækifæri til að fylla ferðatöskur og klára bjórtollinn af algjörum eðal bjór!

 

Deila.