Michel Chapoutier er einhver skrautlegasti og magnaðast víngerðarmaður Rhone-dalsins í Frakklandi og það geta ekki margir keppt við bestu Hermitage-vínin hans. Á síðustu árum hefur hann hins vegar einnig verið að færa út kvíarnar, jafnt innan Frakklands sem víða um heim. Bila Haut eru vín sem Chapoutier framleiðir í Languedoc í Suður-Frakklandi. Occultum Lapidem er dýrara vínið af tveimur Bila Haut-vínum sem hér eru fáanleg, en það er engu að síður ekkert sérstaklega dýrt, ekki síst í ljósi þess hversu ótrúlega magnað innihald flöskunnar er.
Vínið er blanda úr Syrah (50%), Grenache, Carignan og Mourvédre, af elsta vínviðnum á bestu ekrum Chapoutier á AOC-svæðinu Haute Cotes de Rousillon Villages Latour de France í Languedoc. Það er dökkfjólublátt á lit, angan þess er mögnuð, djúpur og þroskaður bláberjasafi, fjólur og jörð það er piprað með vott af reyk, margslungið og seiðandi. Í munni er það aflmikið, þétt, kröftug, mjúk tannín, þéttur og þykkur ávaxtamassi sem hefur næga sýru til að verða lifandi og ferskur.
3.595 krónur. Frábær kaup. Með vel höngnu nautakjöti, villibráð.
-
10