Vinyes Ocults er vínhús í Mendoza-héraðinu í Argentínu, nánar tiltekið í undirhéraðinu Uco sem teygir sig hátt upp í Andes-fjöllin. Nafn vínhússins þýðir „földu“ vínekrurnar og er tilkomið vegna þess að fyrstu skref Vinyes Ocults fyrir um tveimur áratugum voru þau að leita uppi þrúgur af litlum ekrum hátt uppi í Andes-hlíðunum. Fyrsta árið var framleiðslan einungis 400 lítrar en vínhúsið vakti fljótt athygli og aflaði sér margra unnenda strax í byrjun. Þetta er stórt vín en ferskara og liprara en mörg Malbec-vín sem koma af funheitum sléttunum í Mendoza. Ávöxturinn er rauður, heitur og allt að því sultaður, tannín eru kröftug og þétt en fersk og mikil sýra lyftir líka víninu upp og gefur því óvæntan ferskleika og léttleika. Það er fínn þroski í víninu núna en þolir líka alveg geymslu í einhver ár í viðbót.
4.999 krónur. Frábær kaup. Með ribeye-steik eða nautalund. Fínt með Wellington.
-
9