Besti fiskur Bandaríkjanna

Veitingastaðurinn Le Bernardin lætur ekki mikið yfir sér að utan frekar en flestir veitingastaðir borgarinnar en hann er til húsa The Equitable Building í 151 West 51. Street á milli 6. og 7. breiðgötu, steinstnar frá Moma. Þegar inn er komið leynir sér hins vegar ekki að þarna er um að ræða stað í hæsta gæðaflokki. Hann er hlýlega innréttaður, dimmblátt teppi þekur gólfið og veggi að hluta en loft og veggir eru klæddir rauðleitum við. Birtan mild og málverk á veggjum. Allt frá því að maður gengur inn frá því að maður yfirgefur staðinn er maður í öruggum höndum þjónustufólks sem kann fag sitt út í fingurgómana og er algjörlega laust við þann hvimleiða bandaríska sið að þurfa að kynna sig með nafni, þylja upp rétti dagsins á ofurhraða og trufla mann í máltíðinni á fimm mínútna fresti til að athuga hvort allt sé ekki í lagi. Það er bara allt í lagi…

Le Bernardin opnaði raunar fyrst dyr sínar fyrir gestum í París árið 1972. Það voru systkinin Maguy og Gilbert Le Coze frá Bretagne-skaga sem ákvaðu að reyna fyrir sér í höfuðborginni og leggja einungis áherslu á sjávarfang. Þó svo að staðurinn hafi verið opnaður af litlum efnum vakti hann mikla athygli og var fljótlega kominn með eina Michelin-stjörnu og árið 1980 tvær stjörnur.

Bandaríkjamenn höfðu ávallt verið fyrirferðarmiklir á Le Bernardin og varð því úr að systkinin létu reyna á opnun veitingastaðar undir sama nafni í New York. Rétt eins og í París sló Bernardin rækilega í gegn. Hann náði hæstu einkunn í fyrstu tilraun hjá veitingahúsagagnrýnanda New York Times og hefur haldið þeirri einkunn síðan. Þá má einnig nefna að gagnrýnendur Zagat, sem er einhver áhrifamesti veitingahúsavegvísir Bandaríkjanna, tilnefndu Bernardin sem besta veitingahús borgarinnar árið 2005.

Gilbert Le Coze lést langt fyrir aldur fram árið 1994 og tók þá annar Frakkir, Eric Ripert, við taumunum ásamt Maguy Le Coze. Ripert er ekki frá Bretagne heldur Miðjarðarhafsströnd Frakklands en lærði matreiðslu hjá þekktum veitingamönnum á borð við Joel Robuchon og í eldhúsi Tour de Argent áður en hann flutti til Bandaríkjanna árið 1989 í leit að vinnu.

Fiskurinn á Bernardin er líka svo sannarlega góður – og ekki er verra að hann er stundum íslenskur. Ripert, sem hefur komið til Íslands, segist hafa mikinn á huga á að koma hingað aftur og jafnframt að bjóða upp á íslenskan fisk í auknum mæli enda leggur hann mikið upp úr því að gæði hráefna séu í hæsta gæðaflokki. Lágt gengi dollars hefur hins vegar dregið úr áhuga íslenskra fisksala á Bandaríkjamarkaði og þar með möguleikum hans á að nálgast hráefnið. Það var hins vegar yndisleg íslensk smálúða í boði þetta hádegi sem sómdi sér vel innan um túnfisk frá Hawaii hægsoðinn í ólívuolíu og sítrónu og hörpufisk í þunnum sneiðum drekktum í góðri ólívuolíu. Matargerðin er frönsk út í gegn, stundum nútímaleg, stundum klassísk, stundum framtúrstefnuleg. 

Le Bernardin
The Equitable Building
155 W. 51st St.
New York,
Pöntunarsími: 001-212-489-1515

 

Deila.