Vín vikunnar

Vín vikunnar taka að þessu sinni mið af því undursamlega sumarveðri sem (vonandi) er framundan næstu vikuna. Frískleg og góð hvítvín eru sem sagt áberandi. Þar ber fyrst að nefna ítalska hvítvínið Villa Antinori 2008 sem fær hugann til að reika í átt að hádegi á ítölskum útiveitingastað. Þjóðverjar eru snillingar í að gera vín úr þrúgunni Riesling og fáir gera það betur en Ernst Loosen í Móseldalnum. Villa Loosen Riesling 2008 er arómatískt og létt sumarvín. Frá Ástralíu kemur svo Peter Lehmann Barossa Chardonnay 2006 hvítvín sem er gott dæmi um þá stílbreytingu sem orðið hefur í Ástralíu þar sem ávöxturinn er settur í forgrunn en ekki eikin. Eina rauðvínið sem kemur við sögu að þessu sinni er systurvínsins fyrsta hvítvínsins. Villa Antinori 2005 er flott Toskana-rauðvín þar sem heimaþrúgan Sangiovese er blönduð frönsku þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah. Siðasta vínið er raunar einnig rautt en flokkast hins vegar sem freyðandi vín. Þetta er þrusugóður Lambrusco. Vínið 910 Lambrusco Scuro er það gott að það væri óvitlaust að gera eins og Ítalir gera stundum á heitum sumardögum og skipta út rauðvíninu fyrir vandaðan Lambrusco.

Með því að smella á nafn vínsins er hægt að lesa umfjöllun um það og alla víndóma er svo hægt að finna með því að fara í flokkinn Vín og velja þar Víndóma.

Deila.