Hvers vegna hanastél?

Hugtakið cocktail eða hanastél mun hafa séð dagsins ljós í fyrsta skipti í bandarísku tímariti árið 1806 þar sem fjallað var um blöndu af sterku áfengi, sykri, klaka og bitterum. Hvernig í ósköpunum einhverjum skyldi hafa dottið í hug að kenna drykki við hanastél er ráðgáta en kenningarnar eru margar.

Ein er sú að á öldum áður var tagl blendingshesta skorið í sveitum Englands til að auðkenna þá frá hreinræktuðum gæðingum.

Önnur skemmtileg kenning á rætur sínar að rekja til bandarísku frelsisstyrjaldarinnar. Sagan segir að Betsy Flanagan, sem rak knæpu er liðsforingjar jafnt Lafayettes sem Washingtons ástunduðu, hafi eitt sinn eldað máltíð úr kjúklingum er hún rændi af býli nágranna síns er var hallur undir Breta. Til að halda upp á þetta skreytti hún glösin með fjöðrum kjúklinganna. Þetta vakti mikla lukku meðal Frakkanna sem skáluðu óspart undir máltíðinni: Vive le cocktail!

Enn skrautlegri er sagan sem rekur uppruna nafnsins til Mexíkó þar sem bandarískir flotamenn áttu að hafa setið boð héraðshöfðingja að nafni X-octl. Dóttir höfðingjans bar fram magnaða drykki og sjóliðarnir sögðust aldrei munu gleyma henni né drykkjum hennar. Voru þeir nefndir cocktails föður hennar til heiðurs en það var það næsta sem þeir komust framburðinum á nafni hans.

Líklega má draga af þessu þá ályktun að uppruni hanastéls-nafngiftarinnar er óljós enn í dag. Það er hins vegar ljóst að nafnið vann sér sess á nítjándu öld og má að öllum líkindum rekja til Bandaríkjanna.

Í byrjun síðustu aldar fóru kokkteilbarir að opna víða um Evrópu að bandarískri fyrirmynd og í dag er kokkteill eða hanastél viðurkennt samheiti yfir alla blandaða drykki. Fari þeir yfir ákveðna stærð eru þeir hins vegar ekki hanastél lengur heldur long drink. Vodki í kók er til dæmis ekki kokkteill.

Kokkteilar hafa alla tíð notið gífurlegra vinsælda þótt þeir einkennist af tískusveiflum eins og annað. Sum hanastél eru ávallt í tísku, önnur koma og fara.

Deila.