Ítalskar kjötbollur

Kjötbollur eru alltaf vinsælar hjá börnunum. Þessi suður-ítalska uppskrift af kjötbollum með pasta fellur hins vegar ekki síður að smekk fullorðinna og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er hægt að nota margar tegundir af pasta með kjötbollunum en sjálfur nota ég yfirleitt annaðhvort penne eða spaghetti.

Í kjötbollurnar sjálfar þurfum við í skammt fyrir fjóra:

 • 500 g  svínahakk
 • 500 g pasta, t.d. Penne
 • 3-4 hvítlauksrif
 • Steinseljubúnt, helst flatlaufa steinselju
 • 2 egg
 • 2 sneiðar af brauði, venjulegt niðursneitt brauð hentar vel.
 • 1 laukur
 • 1 dl hvítvín
 • 1 dós af heilum tómötum
 • Parmesanostur
 • Ólífuolía
 • Salt og pipar

Saxið hvítlaukinn og steinseljuna fínt. Skerið skorpuna af brauðsneiðunum og saxið það niður í eins litla bita og þið getið. Blandið saman við hakkið.  Rífið niður um það bil hálft stykki af Parmesan-osti og blandið saman við. Bætið eggjunum við og blandið vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.

Mótið kjötbollurnar þannig að þær verði vel þéttar og á stærð við golfkúlu. Það er þægilegt að nota ísskeið við þetta. Passið ykkur á að bollurnar verði ekki of stórar. Þá eru meiri líkur á að þær molni í sundur við steikingu. Veltið bollunum upp úr hveiti.

Hitið ólívuolíu á pönnu. Saxið laukin og mýkið í olíunni á pönnunni. Bætið kjötbollunum við og steikið um stund þar til þær eru orðnar stökkar að utan.

Takið bollurnar af pönnunni og geymið.

Hellið hvítvíninu út á heita pönnuna og notið sleif til að losa skófarnar sem eru fastar við pönnuna. Þetta er það sem gefur sósunni bragð. Bætið nú tómötunum saman við ásamt safanum úr dósinni og maukið á pönnunni. Setjið kjötbollurnar aftur út í og látið malla á vægum hita undir loki í um hálftíma eða þar til sósan er farin að þykkjast.

Hitið pastað skv leiðbeiningum og setjið í stóra skál. Blandið kjötbollunum og sóssunni saman við. Berið fram með fersku salati og nýrifnum Parmesanosti.

Hvað annað með en ítalskt rauðvín? Til dæmis Isole e Olena Chianti Classico eða Cantina Zaccagnini Montepulciano d’Abruzzo.

Deila.