Andarbringur með rifsberjasósu

Andarbringur eru frábær matur og hægt að elda þær á margvíslega vegu. Það er hægt að hafa sósurnar sýrumiklar, sætar eða þykkar og mjúkar. Hér leikum við okkur með rifsberin sem nú eru orðin fullþroska og því tilvalið að nota einhver þeirra í sósur áður en við sultum þau.

Bringurnar, hvort sem þær eru franskar eða íslenskar að uppruna, eru alla jafna frosnar þegar maður kaupir þær og ráðlegt er að gera ráð fyrir einni bringu fyrir tvo, eða tveimur bringum fyrir þrjá ef menn eru svangir og með góða matarlyst.

Þíðið bringurnar í ísskáp yfir nótt. Takið þær úr ísskápnum 2-3 klukkstundum áður en þið eldið þær.

Það tekur ekki langan tíma að elda bringurnar en við byrjum á því að hita ofninn í 200 gráður. Skerið siðan í bringurnar skinnmegin bæði langsum og þversum í gegnum húðina og fitulagið alveg niður að vöðvanum. Saltið vel með Maldon-salti og nuddið því ofan í rásirnar sem þið eruð búin að skera.

Hitið pönnu án olíu eða smjörs.

Leggið bringurnar á pönnuna með skinnhliðina niður og steikið þar til puran er orðin stökk og fín. Snúið þá bringunum við og steikið í 2-3 mínútur á hinni hliðinni. Takið bringurnar af pönnunni, setjið í ofnfast form og setjið inn í ofninn í 8-10 mínútur. Takið þær þá út og leyfið þeim að jafna sig. Á meðan bringurnar eru í ofninum gerum við sósuna en í hana þurfum við þetta:

  • 1 dl De Kuyper Triple Sec eða Grand Marnier
  • 2 dl rauðvín
  • 1 appelsína, börkurinn rifinn og safinn pressaður
  • 1 skarlottulaukur, fínt saxaður
  • 3 dl rifsber
  • 1 msk smjör
  • (rifsberjahlaup)

Við gerum sósuna á sömu pönnu og við steiktum bringurnar. Það rennur mikil fita úr þeim við steikingu og við hellum henni allri frá að um það bil tveimur matskeiðum undanskildum. Fyrst setum við saxaða skarlottulaukinn á pönnuna og brúnum hann í 2-3 mínútúr. Þá hellum við Triple Sec á pönnuna og sjóðum alveg niður en það tekur ekki margar sekúndur. Þá bætum við út á rauðvíninu og safanum úr appelsínunni ásamt rifna appelsínuberkinum. Sjóðið niður um helming og bætið þá rifsberjunum út og lækkið í hitanum. Sjóðið áfram í tvær mínútur eða svo og hrærið þá matskeið af volgu smjöri út í.

Athugið að þessi sósa getur orðið svolítið sýrumikil. Það á mjög vel við fituna úr öndinni og dregur fram bestu eiginleika rauðvínsins. Ef þið viljið almennt hafa meiri sætu í sósunni þá er ráðlegt að setja svo sem eina góða matskeið af rifsberjahlaupi útí og hræra saman við áður en þið bætið við smjörinu.

Skerið nú niður andarbringurnar í um hálfs til eins sentimetra þykkar sneiðar. Hún á helst að vera örlítið bleik í miðjunni. Setjið á diska og hellið sósunni yfir.

Það er mjög gott að hafa steiktar kartöflur þessu til viðbótar og þá að sjálfsögðu steiktar úr andarfitu. Forsjóðið og skerið í bita. Þegar þið eruð búin að steikja bringurnar þá hellið þið megninu af feitinni á aðra pönnu og steikið kartöflurnar á henni upp úr feitinni þar til þær verða stökkar og fínar. Saltið með Maldon-salti í lokin.

Bordeaux-vín eiga hrikalega vel með önd og þá góð Bordeaux-vín. Ég mæli með Brio de Cantenac. Þið gætuð hins vegar einnig reynt hinn magnaða Suður-Ítala Terra di Volcano Aglianico del Vulture.

 

Deila.