Fischer St. Laurent 2007

Það er ekki oft sem vín úr þrúgunni St. Laurent hafa ratað hingað til lands, því miður. St. Laurent er ein af helstu rauðvínsþrúgum Austurríkis. Þangað kom hún upprunalega frá Þýskalandi fyrir tæpum tvö hundruð árum en er nú nær eingöngu ræktuð í Austurríki, þar sem hún nýtur mikilla vinsælda, og Tékklandi. St. Laurent hefur notið vaxandi hylli utan Austurríkis á síðustu árum enda minnir hún um margt á Pinot Noir, sem hún er náskyld.

Weingut Fischer er einn helsti framleiðandi héraðsins Thermenregion suður af vín og þetta St. Laurent-vín fjölskyldunnar er nýkomið á sérlista vínbúðanna.

Fischer Classic St. Laurent 2007 hefur angan af skógarberjum, rauðum og svörtum, lyngi og kryddi. Fínlegt og milliþungt í munni með fáguðum tannínum og kirsuberjakeim í bland við dökkt súkkulaði. Mjög dæmigert og vandað St. Laurent, svolítið eins og ýkt útgáfa af Pinot Noir.

Reynið með kálfakjöti, af hverju ekki Vínarsnitsel?

2.771 krónur.

 

 

Deila.