Peter Lehmann Barossa Riesling 2008

Ástralski víngerðarmaðurinn Peter Lehmann hlaut í þessari viku sérstaka viðurkenningu (Lifetime Achievement Award) á hinu árlega International Wine Challenge í London fyrir ævistarf sitt. Þessi viðurkenning þykir einn mesti heiður sem hægt er að öðlast í vínheiminum en Lehmann á að baki 62 ára starf í víngerð Ástralíu. Hann stofnaði fyrirtæki í Barossa undir eigin nafni á síðari hluta áttunda áratugarins sem hefur alla tíð haft að markmiði að eiga samstarf við litla vínræktendur og kaupa framleiðslu þeirra. Peter Lehmann lét sjálfur af stjórn fyrirtækisins, sem nú er í eigu Hess Group, fyrir nokkrum árum og er það nú undir stjórn Doug sonar hans.

Það er því ástæða til að fjalla um eitt af vínum Peter Lehmanns af þessu tilefni.

Peter Lehmann Barossa Riesling 2008 er dæmigerður Riesling en líka dæmigerður Ástrali. Þarna er að finna sítrónuangan sem er svo einkennandi fyrir ungan Riesling en ekki síður límónu og þurrkaða hitabeltisávexti. Nokkuð feitt í munni án þess að vera yfirkeyrt, heldur góðum ferskleika og nýtur sín best vel kælt. Með skrúfuðum tappa.

Fjölhæft matarvín eða fordrykkur.

1.999 krónur. Góð kaup.

 

 

Deila.