Montecillo Reserva 2005

Rauðvínin frá Montecillo hafa löngum notið hylli hér á landi enda hin ágæustu Rioja-vín. Montecillo er gamalgróið vínhús sem nú er í eigu Osborne-sérrírisans. Þetta Reserva-vín er unnið 100% úr þrúgunni Tempranillo og var geymt eitt ár á eikartunnum og tvö ár á flösku í kjöllurum Montecillo áður en það fór á markað.

Montecillo Reserva 2005 er tiltölulega ungt og hefur ljúfa ávaxtaangan af bláberljum, villtum jarðarberjum og brómberjum í bland við vanillu og kaffi úr eikinni. Tannín þétt og fersk í munni, þetta er ágætis matarvín og líkt og flest Rioja-vín er það kjöt – ekki síst nautakjöt – og þurrir ostar á borð við Manchego eða hollenskan Gouda sem draga fram það besta í víninu.

2.499 krónur.

 

Deila.