La Chablisienne La Sereine Chablis 2006

Vínsamlög eru algeng í Evrópu, í Frakklandi kallast þau co-operative og á Ítalíu cantina. Kerfið ekki ósvipað íslensku mjólkursamlögunum. Í flestum tilvikum framleiða þau ódýr og óeftirminnileg vín þar sem þrúgum og vínum frá hundruðum vínbænda er sturtað saman. Í einstaka tilvikum eru samlögin hins vegar leiðandi í gæðaframleiðslu á sínu svæði.

La Chablisienne í Chablis í Norður-Frakklandi er dæmi um vínsamlag sem hefur markað sér stöðu sem afgerandi gæðaframleiðandi í héraðinu. Samlagið var sett á laggirnar árið 1923 og í dag eiga um 300 vínræktendur aðild að því. Ræður samlagið yfir um 25% af heildarræktarsvæði Chablis og framleiðir allt frá Petit Chablis og upp í Grand Cru. Raunar á Chablisienne einkarétt á einu þekktasta Grand Cru Chablis nefnilega Les Grenouilles.

La Chablisienne La Sereine Chablis 2006 er nefnt eftir ánni sem rennur framhjá Chablis. Það er óeikað og hefur ferska sítrusangan ásamt sætri melónu og steinefnum. Milt og milliþungt í munni með mjög mildri og ferskri sýru. Hreinn og beinn Chablis á ágætu verði.

Með öllum góðum sjávarréttum.

2.599 krónur

 

Deila.