Santa Alvara Cabernet Sauvignon 2006

Þessi Cabernet frá Chile er framleiddur af vínhúsinu Casa Lapostolle sem er í eigu frönsku Marnier-Lapostolle-fjölskyldunnar, sem þekktust er fyrir að framleiða líkjörinn Grand Marnier. Vínhúsið í Chile hefur löngum notið góðs af þekkingu víngerðarmannsins Michel Rolland. Þeir eru ófáir Frakkarnir sem hafa komið sögu vínræktar í Chile undanfarin ár, flestir þeirra líkt og Rolland frá Bordeaux enda aðstæður til ræktunar á Cabernet Sauvignon með eindæmum góðar í Chile. Santa Alvara eru ódýrustu vínin frá Lapostolle og koma þrúgurnar frá Rapel-dalnum, suður af Santiago.

Santa Alvara Cabernet Sauvignon 2006 er dökkt með þungri og djúpri sólberjaangan, minnir um margt á Bordeaux-vín í nefinu þegar vínið hefur staðið um stund. Þarna er smá sedrusviður og tóbak og örlítil græn paprika. Nýjaheimsuppruninn leynir sér þó ekki í munni, tannínin mild og mjúk og ávöxturinn heitur og kryddaður, vínið heil 14,5%

Virkilega gott vín fyrir verðið. Hentar vel með grilluðu kjöti, reynið með nauti eða lambakótilettum.

1.397 krónur.

 

 

 

Deila.