Hér kemur enn ein sígild, ítölsk pastauppskrift. Sá ítalski veitingastaður er líklega vart til sem hefur ekki einhvern tímann verið með Spaghetti Carbonara í einhverri útfærslu á matseðli sínum. Þessi þykka pastasósa úr eggjum og osti ásamt beikoni er enda alveg hreint unaðsleg.
- 500 g spaghetti
- 250 grömm beikon (veljið það fituminnsta sem þið sjáið)
- 2 eggjarauður
- 2 egg
- 1 dl hvítvín
- Múskathneta, rifin
- 2 msk ólívuolía
- 2 msk smjör
- 2 dl rifinn Parmesanostur
Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er sósan undirbúin.
Skerið beikon í litla bita og steikið í 2 msk af ólívuolíu í um fimm mínútur. Þá ætti beikonið að vera farið að verða stökkt. Bætið nú hvítvíninu við og leyfið því að sjóða saman við beikonið í 2-3 mínútur. Takið af hita og geymið.
Pískið saman eggjarauðurnar, eggin og parmesan-ostin í skál og bætið 1-2 tsk af rifinni múskathnetu ásamt nýmuldum pipar saman við. Geymið.
Þegar pastað er að verða tilbúið er beikonið hitað upp á ný og 2 msk af smjöri bætt út á pönnuna. Setjið pastað í sigti og bætið því síðan út á pönnuna. Blandið saman við beikonið. Slökkvið nú á hitanum og bætið loks eggjablöndunni saman við pastað. Hrærið henni varlega saman við og haldið síðan áfram að velta pastanu um á pönnunni þannig að eggjablandinn hitni vel. Það tekur nokkrar mínútur fyrir hana að verða tilbúna og það mikilvægasta er að kveikja ekki aftur á hitanum.
Berið fram ásamt rifnum parmesanosti, baguette-brauði og salati.
Ítalskt rauðvín með á borð við Villa Novare Ripasso eða Cantina Zaccagnini.