Mojito kvöld!

Það hefur enginn kokkteill notið þvílíkra vinsælda á Íslandi síðastliðin ár og Mojito. Raunar er hann einnig með vinsælustu drykkjum í heimi. Mojito er kúbanskur að uppruna og hafa menn reynt að rekja sögu hans margar aldir aftur í tímann. Enginn veit fyrir víst hvernig nafnið er til komið en það gæti verið dregið af spænska orðinu mojadito, sem þýðir svolítið rakur.

Ernest Hemingway var mikill mojito-maður og drakk þá helst á barnum La Bodeguita del medio í Havana Vieja. Þar má enn lesta það sem hann krotaði eitt sinn á vegg: Mi mojito en la Bodeguita.

Mojito og barinn Bodeguita del medio komu einnig við sögu í kvikmyndinni Miami Vice en atriðið þar sem Crockett og Isabella skella sér yfir hafið til Kúbu til að fá sér mojito var þó ekki tekið á hinum eina, sanna Bodeguita-bar.

Hér á Íslandi hófst Mojito-æðið fyrir um áratug með Mojito-kvöldum á Fimmtu hæð Apóteksins og á Thorvaldsen. Nú má fá Mojito á fjölmörgum stöðum, hann er skuggalega góður á 101 og á Thorvaldsen og Vegamótum eru haldin vikuleg Mojito-kvöld á fimmtudögum  þar sem verðið á Mojito er lækkað verulega eða niður í um þúsundkallinn.

Deila.