Frönsk plómubaka

Frakkar nota ávexti mikið í eftirréttum sínum og meðal annars eru ávaxtabökur mjög vinsælar. Víðast hvar í Frakklandi eru slíkar bökur kallaðar Tarte aux Prunes en í Alsace eru þær hins vegar nefndar Quetsche eftir plómuafbrigði sem þar er ræktað. Það nafn kemur úr þýsku þar sem þetta plómuafbrigði er nefnt Zwetsche. Svo má auðvitað leiða að því líkur að þaðan sé íslenska orðið sveskjur komið, en sveskjur eru auðvitað eins og við vitum þurrkaðar plómur.

Þessi uppskrift kemur frá Alsace en við notum bara þær plómur sem eru til út í búð:

  • 200 g hveiti
  • 100 g smjör, volgt
  • 1 egg
  • saltklípa
  • 1-2 msk vatn
  • 6-7 plómur, um það bil 500 grömm
  • kanilsykur

Blandið saman hveiti, smjöri, eggi og vatni. Mótið kúlu og geymið í ísskáp í um tvær klukkustundir. Fletjið þá út og setjið í bökuform.

Þvoið plómurnar, skerið í tvennt og takið steinana út. Raðið þeim með hýðishliðinni niður á bökudeigið. Stráið 2-3 msk af kanilsykri yfir og bakið í 200 gráðu heitum ofni í um 40 mínútum.

Í Alsace drekka menn gjarnan Gewurztraminer með plómubökunni. Reynið Gewurztraminerinn frá Pfaffenheim eða Willm svo dæmi séu tekin.

 

Deila.